133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

afnám verðtryggingar lána.

10. mál
[18:02]
Hlusta

Flm. (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um afnám verðtryggingar lána. Flutningsmenn með mér eru hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson og Guðjón Arnar Kristjánsson.

Þingsályktunartillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela viðskiptaráðherra að hefja nú þegar undirbúning þess að afnumin verði verðtrygging húsnæðislána.“

Á Íslandi búa lántakendur húsnæðislána jafnan við hæstu vexti í Evrópu og þar að auki eru lánin verðtryggð. Íslenskt fjármálakerfi er orðið hluti af alþjóðlegu umhverfi og þess vegna þarf að aðlaga reglur þess og kjör því sem almennt gerist í vestrænum ríkjum. Lánskjör íbúðalána til almennings eru einn þeirra þátta sem þarf að aðlaga. Þau eru alla jafna verðtryggð hér á landi en það heyrir til undantekninga að lán séu verðtryggð erlendis. Það er óásættanlegt að landsmenn búi við allt önnur og miklu lakari lánskjör en almennt gerist í nágrannaríkjunum.

Helstu röksemdir fyrir verðtryggingu lána á Íslandi hafa hingað til verið að með henni skapist forsendur fyrir lægri vöxtum en sú hefur alls ekki orðið raunin. Frá því að gríðarleg hækkunarhrina stýrivaxta hófst í maí 2004 hafa stýrivextir hækkað um 264% en verðbólga hefur fjórfaldast á sama tíma. Þetta sýnir að hækkun stýrivaxta hefur alls ekki tilætluð áhrif, enda bera langtímalán jafnan fasta verðtryggða vexti en breyting stýrivaxta hefur lítil sem engin áhrif á verðtryggðu lánin og þar með hefur umrædd hækkun stýrivaxta lítil áhrif til að minnka þenslu. Einu merkjanlegu áhrif stýrivaxtahækkana varða minni fyrirtæki og einstaklinga sem tekið hafa skammtímalán. Búast má við að stýrivaxtahækkunin snerti einkum þá sem standa hvað lakast að vígi við öflun lánsfjár.

Hækkun stýrivaxta hefur bein áhrif til styrkingar á gengi íslensku krónunnar. Það hefur valdið yfirverði á íslensku krónunni sem hefur aukið kaupmátt íslenskra heimila á erlendum varningi og þar með stuðlað að auknum innflutningi og alls ekki slegið á þenslu eins og há verðbólga er til vitnis um. Einnig hefur sýnt sig að hátt verð krónunnar hefur verið þrándur í götu útflutningsfyrirtækja, veikt afkomu þeirra og stuðlað að vöruskiptahalla.

Nauðsynlegt er að breyta lánakerfinu með þeim hætti að stýritæki Seðlabankans verði skilvirkari þar sem núverandi ástand ýtir undir ójafnvægi og hætt er við að ef slakað er á í vaxtahækkunum hríðfalli gengi íslensku krónunnar líkt og gerðist fyrr á árinu.

Afnám verðtryggingar mundi ekki skerða hag lánveitenda til lengri tíma þar sem það yki stöðugleika í efnahagslífinu og yrði til þess að lánastofnanir þyrftu í auknum mæli að taka tillit til stýrivaxta Seðlabankans í öllum ákvörðunum sínum. Við afnám verðtryggingar gæti lánveitandi ekki varpað allri ábyrgð á verðbólguáhættu á lántakandann og það mundi ýta undir ábyrga efnahagsþróun. Við breytinguna mundi einnig skapast þrýstingur til lækkunar vaxtastigs í landinu þar sem lánveitendur og lántakendur yrðu að taka mið af raunhæfum vaxtakröfum í stað þess að skjóta vaxtagreiðslum á frest til næstu kynslóða.

Frú forseti. Afnám verðtryggingar hefur áður komið til umræðu á hinu háa Alþingi og ber að nefna m.a. frumvarp sem Bryndís Hlöðversdóttir flutti um þjónustugjöld og verðtryggingu fyrir fáeinum árum og sömuleiðis hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, sem hefur flutt mál sem varða afnám verðtryggingarinnar, þ.e. að leggja eigi verðtryggingu af í áföngum. Sömuleiðis hafa komið fram fyrirspurnir, m.a. frá hv. þm. Jóni Gunnarssyni, og þar tók þáverandi viðskiptaráðherra af öll tvímæli um að hún væri í raun andvíg því að fara þá leið þannig að kjör og vextir almennra lántakenda, minni lántakenda, fyrirtækja og almennings, yrðu með sama hætti og í nágrannaríkjunum. Sama er að segja um fyrirspurn sem hv. þm. Valdimar Leó Friðriksson flutti síðasta vor.

Maður furðar sig á því að Framsóknarflokkurinn leggst gegn því að vextir, verðtrygging og lánaskilmálar verði með sama hætti og almennt gerist í vestrænum ríkjum. Það kemur fram m.a. fram í fyrri frumvörpum sem flutt hafa verið að það heyri til algerra undantekninga að verðtrygging sé notuð í lánum til húsnæðiskaupa. Það þekkist að verðtryggja ríkisskuldabréf en að verðtryggja lán til íbúðakaupa heyrir til undantekninga.

Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að skoða þessa leið. Af þingtíðindum má ráða að sjálfstæðismenn hafa almennt verið jákvæðir gagnvart því að afnema verðtrygginguna. En svo virðist sem Framsóknarflokkurinn leggist algerlega gegn því. Maður furðar sig á því hvers vegna það er. Það er kominn tími til að bæta hag lántakenda á Íslandi með margvíslegum hætti. Við í Frjálslynda flokknum leggjum fram þessa þingsályktunartillögu og sömuleiðis um að afnema stimpilgjöld, aðra mikilvæga tillögu sem tryggir að lántakendur geti farið á milli lánastofnana og fengið hagstæðari kjör án þess að greiða sérstakan skatt til ríkisins.

Það hefur verið nefnt í umræðunni að háir vextir og verðtrygging séu mikil byrði fyrir lántakendur. Íslensk heimili skulda gríðarlega háar fjárhæðir. Þess vegna hefur verið reiknað út að 1% vaxtahækkun, hvort sem hún stafi af verðbólgu eða hækkun vaxta, muni heimilin jafnvel um 12 milljarða kr. á ári. Þar er um mikið hagsmunamál að ræða. Þessi þingsályktun er sannarlega þess virði að hún fái rækilega skoðun í efnahags- og viðskiptanefnd, sem ég vísa henni til hér með og síðari umr.

Að ýmsu ber að hyggja þegar við ræðum um verðtryggingu og afnám hennar. Ég vildi m.a. nefna að verðtryggingin gæti hafa orðið til að slæva bankana í að vera á varðbergi fyrir innstreymi erlends fjár. Staða innlánsstofnana hefur veikst mjög á undanförnum árum. Bara frá árinu 2004 hefur hrein staða bankanna við útlönd veikst um 1.100 milljarða kr., hvorki meira né minna. Fara þarf rækilega yfir þessi mál, ekki eingöngu út frá stöðu lántakenda heldur líka út frá því hvernig við stýrum hagkerfinu.

Vert er að minnast á að lífeyrissjóðirnir eru að miklu leyti eigendur skuldbindinga og eignir þeirra í verðbréfum, samkvæmt Seðlabankanum, eru yfir 900 milljarðar kr. Þetta mál varðar því stjórn lífeyrissjóða sem í sitja fulltrúar launafólks og atvinnurekenda. Þeir hópar þurfa að koma að borðinu og umræðunni um hvernig við ætlum að hafa lánafyrirkomulag almennings í framtíðinni. Umræðan er mjög mikilvæg og ég er viss um að æ meira muni bera á henni á komandi mánuðum, sérstaklega ef ekki tekst að ná tökum á verðbólgunni. Því miður virðist hún ekki á niðurleið heldur bendir ýmislegt, m.a. veiking krónunnar síðustu vikuna, til þess að menn hafi ekki náð tökum á verðbólgunni. Við sem fylgjumst með efnahagsmálum höfum vissar áhyggjur af því vegna þess að há verðbólga kemur harðast niður á skuldsettum heimilum.