133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

afnám verðtryggingar lána.

10. mál
[18:20]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um afnám verðtryggingar lána. Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem við ræðum það. En öll greinargerðin gengur út frá því að eingöngu séu til skuldarar í landinu en enginn sem leggi fyrir.

Bankar, sem oft eru sagðir hafa bæði belti og axlabönd, eiga yfirleitt ekki sparifé. Bankar leggja ekki fyrir. Athafnamenn leggja heldur ekki fyrir. Það er launafólk sem leggur fyrir. Þetta hafa rannsóknir sýnt. Á Íslandi er því miður allt of lítill sparnaður. Enda gengur öll umræðan út á hag skuldarans. Ég hef sagt að þetta sé skuldaraþjóðfélag.

Hvar er sparnaðurinn? Hann er lögþvingaður með því að skylda alla launamenn til að borga í lífeyrissjóð og þar verður sparnaðurinn til — með skyldusparnaði. Það er sem sagt allt launafólk í landinu sem á spariféð sem er með belti og axlabönd, eins og menn kalla það. Það eru ljótu kallarnir. (Gripið fram í: Það eru þeir sem eiga peninga … lífeyrissjóðirnir.) Þeir sem eiga fjármagn eru yfirleitt með það bundið í atvinnurekstri og skulda oft miklu meira en þeir eiga í sparifé. Mér þætti gaman að sjá einn slíkan sem á meira sparifé en hann á í skuldum. Það eru lífeyrissjóðirnir og launafólk sem á sparifé í landinu. Það eru þeir sem samkvæmt þessari greinargerð eru að græða á verðbólgunni.

En nú kemur merkilegt í ljós. Kannað var fyrir nokkrum árum, ég hef ekki séð nýja könnun en gaman væri að sjá hana, að vextir af verðtryggðum lánum plús verðtrygging hafa ætíð verið lægri en vextir á óverðtryggðum lánum eftir að vaxtafrelsi var tekið upp. Það er heldur ekkert skrýtið, frú forseti, vegna þess að ef maður, segjum að hv. framsögumaður, Sigurjón Þórðarson, ætti sparifé, segjum að hann ætti 1 eða 2 milljónir og vildi leggja þær fyrir. Ef hann fær ekki verðtryggingu þá að sjálfsögðu krefst hann hærri vaxta út af áhættunni, því að verðbólguskot gæti komið sem rústaði eigninni hans. Eins og t.d. er núna. Nú er verðbólguskot og nú situr fjöldi sparifjáreigenda út um allt land og er að tapa vegna þess að nafnvextirnir, ef innstæða er óverðtryggð, ná eiginlega aldrei 7,6% sem er verðbólgan akkúrat í dag. (Gripið fram í: … breytilega vexti.) Já, en þá taka menn breytilega vexti, ég kem að því á eftir. En þeir sem eru með fasta vexti á sparisjóðsbókinni sinni eru að tapa og þeir borga meira að segja fjármagnstekjuskatt af tapinu, á meðan þeir tapa.

Málsvara hefur vantað fyrir sparifjáreigendur á Íslandi. Hann hefur alltaf vantað. Þetta er skuldaraþjóðfélag. Og sú dyggð að leggja fyrir endurspeglast ekki í svona tillöguflutningi.

En það merkilega er, sem ég ætlaði að koma inn á áðan þegar ég var truflaður í frammíkalli, að verðtryggðir vextir hafa alltaf reynst skuldaranum hagstæðari en áhættan er tekin af sparifjáreigandanum. Og þess vegna eru þeir vextir lægri og hagstæðari fyrir skuldarann en fyrir sparifjáreigandann. En sparifjáreigandinn vill það frekar vegna þess að hann fær tryggingu gegn skyndilegri verðbólgu.

Bankarnir sjálfir eru bara miðlarar. Þeim er nokk sama hvað vextirnir eru og hvort lán eru verðtryggð eða óverðtryggð. Þeir taka vaxtamun sem þóknun, en þeir eiga yfirleitt ekki sparifé sjálfir. Þeim er því nokk sama. Eins og ég gat um eiga stórfjárfestar og þeir sem eru miklir athafnamenn yfirleitt ekki sparifé. Við erum því að tala launafólk í landinu, þúsundir, hundruð þúsunda sem eiga sparifé í lífeyrissjóðum og svo hina sem eiga sparisjóðsbók.

Í sjálfu sér gætum við alveg farið yfir í breytilega vexti eins og hér var kallað fram í. Það er alls staðar gert í heiminum þar sem langtímalán eru til lengri tíma en tíu ára, segjum 30 eða 40 ára lán. Það dytti ekki nokkrum manni í hug að leggja fyrir innstæðu, ekki hv. þingmanni með sínar 2 milljónir, með föstum vöxtum í 40 ár. Svo kæmi ein verðbólguholskefla upp á 30% eftir 20 ár og öll innstæða er farin, öll ávöxtun og allt saman. Nei, menn vilja hafa breytilega vexti. Þá kemur upp mjög sérstakt ástand. Ef vextir væru breytilegir í dag og 4% raunvextir þyrftu vextirnir að vera 12%. Það er það sem hv. þingmaður mundi fara fram á. 12% þyrfti fólkið að borga af höfuðstólnum. Ef það er með 30 millj. kr. skuld, eins og sumir núna sem eru nýbúnir að kaupa sér eign, þá þyrftu þeir að borga 3,6 milljónir í vexti, bara í vexti. Borga það, greiða þær á staðnum og svo að sjálfsögðu afborganir.

Er það þetta sem við viljum? Það er ég hræddur um ekki. Ég er ansi hræddur um að margur skuldarinn mundi þá kveinka sér, að borga 300.000 kr. á mánuði bara í vexti. Það eru kannski ekki margir sem skulda 30 milljónir en þó það séu 20 milljónir, sem er ekki óalgeng tala, væru það 2,4 milljónir sem 12% vextir þýddu eða 200 þús. kr. á mánuði..

Það kemur því í ljós að verðtryggingin er bara góð fyrir skuldarann. Yfirleitt alltaf. Hún er líka góð fyrir sparifjáreigandann, lífeyrissjóðina, fyrir hönd hundruð þúsunda sjóðfélaga, og litla launamanninn sem á sína sparisjóðsbók vegna þess að hann er firrtur áhættunni af gengisskoti. Menn eru því ekkert að bæta hag skuldara með þessari tillögu. Alls ekki. En í hv. efnahags- og viðskiptanefnd mun ég að sjálfsögðu ræða þetta og fara í gegnum það og vita hvort menn virkilega vilja þetta. Ef svo er, að menn vilji sjá greiðslubyrði upp á 2,4 millj. kr. bara fyrir vexti af venjulegu íbúðaláni, ef menn vilja hafa það, allt í lagi, 200.000 kr. á mánuði þyrfti fólkið að borga. Það þyrfti þá aldeilis að hafa tekjur og síðan eru afborganir líka af láninu.

Ég er því ekki viss um að menn hafi hugsað þetta til enda. Enda er verðtryggingin í flestum löndum að aukast. Menn eru að auka heimildir til þess þó menn fari mjög varlega. Af hverju fara menn varlega? Vegna þess að stýritæki Seðlabankans veikjast. Hann hefur ekki lengur sömu stýritækin þegar svona stór hluti af lánamarkaðnum er verðtryggður. Það er vandinn. Það er vandi sem hann kemst ekki hjá.

Þegar menn eru að tala um að afnema verðtryggingu eru þeir að tala um að koma með mjög sveiflukennda greiðslubyrði af lánum sem er háð verðbólgu því menn þyrftu að borga verðbólguna af öllum höfuðstólnum. Það gerist ekki með verðtryggð lán. Þar hækkar höfuðstóllinn sjálfkrafa en menn borgar hann ekki. Þetta er sú mikla breyting sem er á því að hafa þetta verðtryggt eða óverðtryggt.

En eins og ég gat um getur vel verið að komið sé það mikið jafnvægi í lánamarkaðinn, minni hættur séu af svona verðbólguskotum, að í lagi sé að afnema verðtrygginguna. Þá getum við rætt það og farið í gegnum það. Ég er ekki á móti þessari þingsályktunartillögu í sjálfu sér. En að afnema verðtrygginguna án þess að horfa á kosti og galla og án þess að átta sig á hverjir eru hinir raunverulegu eigendur sparifjár, það finnst mér ekki nógu sniðugt.