133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

afnám verðtryggingar lána.

10. mál
[18:36]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir að fara þarf fram umræða um verðtryggingu og það sé af hinu góða. Þá þurfa menn líka að segja frá því sem rétt er að skuldaaukningin hjá bönkunum þar sem Íslendingar tóku lán með lækkandi vöxtum, sem er sennilega ein mesta kjarabót sem íslenskir launþegar hafa fengið í áratugi, fólst í því að greiða upp lán hjá Íbúðalánasjóði. Þetta var tilfærsla á skuldum. Það er því ekki rétt að þetta hafi alfarið verið nýjar skuldir hjá bönkunum, þó að því miður hafi verið of mikið um það og sérstaklega of mikið á yfirdrætti, sem er með allt, allt of háum vöxtum. Fólk á að sjálfsögðu ekki að vera með yfirdrátt, það á enginn að vera með yfirdrátt, ekki einn einasti maður.

Vaxtalækkunin sem varð fyrir þrem árum olli þeirri þenslu sem við glímum við í dag og hún stafar af virkjuninni fyrir austan. Það er samdóma álit flestra. Háir stýrivextir Seðlabankans og mjög góð afkoma ríkissjóðs, sem er líka þáttur í því að vinna gegn þenslunni, afkoma ríkissjóðs er ein sú besta í heimi, valda því að menn eru farnir að spá því núna að verðbólgan á næsta ári nái nánast markmiðum Seðlabankans, þ.e. að sú mikla verðbólga, 7,6%, sem við búum við í dag verði horfin um mitt næsta ár og komin niður í þær hæðir sem Seðlabankinn stefnir að, þannig að þetta er ekki svo alslæmt.

En ég vil undirstrika að sú þensla sem við búum við í dag er aðallega vegna þess að bankarnir fóru í samkeppni við Íbúðalánasjóð og buðu lægri vexti en Íslendingar hafa séð í lengri tíma, þó að þeir séu enn þá of háir miðað við það sem gengur og gerist erlendis.