133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

afnám verðtryggingar lána.

10. mál
[18:38]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Umræður um verðtryggingu hafa oft farið fram á Alþingi og hér var þess getið að margir hefðu flutt tillögur áður um að þessi mál yrðu endurskoðuð og verðtryggingin lögð af. Ég minnist þess, það hefur líklega verið á árinu 1992 eða 1993, að ég var meðflutningsmaður á þingmáli sem flutt var um þetta efni. Ég rifja það upp vegna þess að hv. framsögumaður talaði um að Framsóknarflokkurinn væri á móti málinu. Þá var Steingrímur Hermannsson formaður Framsóknarflokksins og hann var akkúrat á því máli sem ég tók þátt í að flytja á þinginu, það var líklega 1992 eða eitthvað svoleiðis sem það mál var hér til umræðu.

Á sínum tíma þegar umræður fóru fram um að koma á verðtryggingu fylgdist ég auðvitað með þeirri umræðu og tók þátt í henni eins og aðrir í samfélaginu. Ég keypti þessa hugmynd vegna þess að mér var sagt að ef verðtryggingin kæmist á mundum við sjá svona 1–3% vexti. Það yrði allt annað líf í landinu, í stað þess að vera með vexti upp á tugi prósenta gætum við farið í verðtryggð lán og borgað 1–3% vexti.

Þetta stóð ekki lengi, þetta tilboð varð aldrei til. Þremur eða fjórum árum eftir að verðtryggingin var komin á voru menn komnir með vextina langt, langt upp fyrir þetta. Síðan hafa menn hirt vexti ofan á verðtryggingu sem hafa verið langt fyrir ofan þær væntingar sem okkur voru gefnar á sínum tíma.

Ég er af einni ástæðu á móti verðtryggingu, það er grundvallarastaða og ég hef farið yfir það hér áður. Ég tel að það sé afar óeðlilegt að eignir í samfélaginu séu ekki allar undir svipaða sök seldar hvað varðar verðrýrnun og að það sé fyrst og fremst af þeim ástæðum sem menn eigi ekki að taka stóra þætti út úr samfélaginu sem ekki eiga að taka þátt í þeirri verðrýrnun sem hugsanlega getur komið upp. Skuldir manna eða eignir í skuldum, t.d. í húsnæðiskerfinu, eiga að geta rýrnað eins og aðrar eignir. Samfélagið þarf á því að halda, viðskiptasamfélagið er þannig að allar eignir eru í raun og veru að rýrna eða vaxa, fátt stendur kyrrt í samfélaginu. Þetta þarf allt að fá að þróast með eðlilegum hætti og þar eiga viðskiptin í samfélaginu að skapa verðið. Þetta er tekið úr sambandi með verðtryggingunni og ég tel að það sé ekki hollt.

Það sýndi sig mjög eftir að verðtryggingin var sett á, og ég bendi nú stundum á það, að menn urðu svo hrifnir af verðtryggingu á Íslandi að þeir settu á verðtryggingu launa. Það stóð ekki lengi. Menn sáu að það var ekki hægt, samfélagið gat ekki staðið við verðtryggingu launa. Það myndaðist bara skrúfa sem engin leið var að sjá fyrir endann á. Það varð niðurstaðan að taka verðtrygginguna af laununum en hafa hana áfram á lánunum og það var erfiður tími sem kom í kjölfarið. Það má segja að hluti af því hafi kannski verið eðlilegt en ekki allt. Hluti af því var eðlilegt vegna þess að fjármunir höfðu verið gengisfelldir á Íslandi með þvílíkum endemum að hvergi hafði sést annað eins og á þessu verðbólgutímabili sem við lifðum. Þess vegna mátti kannski segja að ákveðin rök hafi verið fyrir því að halda verðtryggingu í einhvern tíma. Hver eru rökin núna? Nú eru rökin þau að í raun og veru er verið að hræða menn með því að verðbólgan verði svo mikil að það sé ekki hægt annað en hafa verðtryggingu, af því að menn séu með allt í voðanum ef það komi verðbólguskot. Hvað segir þetta okkur? Það segir okkur að það er mikil vantrú í landinu á íslenskt fjármálalíf. Ástæðurnar eru auðvitað fyrir hendi. Maður getur alveg skilið það að menn trúi ekkert óskaplega mikið á íslensku krónuna en þetta hangir auðvitað allt saman. Ef menn trúa ekki á að hér geti orðið eðlilegt ástand hvað varðar verðbólgu þá eru menn í raun og veru líka að segja að þeir trúi ekki á íslenskt fjármálakerfi og íslenska krónu sem stabílt framtíðarfyrirkomulag.

Ég held að þessi umræða verði aldrei slitin í sundur. Ég held reyndar að ekki muni verða samkomulag um að afnema verðtryggingu á lánum hér á landi. Breytilegir vextir í verðbólgusamfélagi sem látnir eru taka breytingum sem þarf til að verja eignirnar eru sambærilegir við verðtryggingu. (Gripið fram í.) Það er bara nákvæmlega verðtrygging. Það er náttúrlega hægt að hugsa sér að menn bæti síðan þessum álagsvöxtum við höfuðstólinn og þá eru menn bara komnir með verðtryggingu. Það er nákvæmlega það sem verðtryggingin gerir. En auðvitað hefur sá leiðangur enga þýðingu.

Það sem mér finnst skipta mestu máli í þessu er að menn reyni að finna leið til að styrkja íslenskt fjármálakerfi og koma á ró, koma á stöðugleika sem dugar til þess að fólk geti lifað í öruggu fjármálaumhverfi, en það er ekki öruggt núna. Mér finnst að síðustu ár hafi smám saman fært okkur heim sanninn um það að þetta örlitla íslenska hagkerfi getur ekki staðið til framtíðar eitt og sér með sína krónu. Það er allt of mikil áhætta fyrir fólk og fyrirtæki og menn þurfa því með einhverjum hætti að leita leiða til að koma hér upp sambærilegu fjármálakerfi, sambærilegu öryggi í fjármálum og er í löndunum í kringum okkur. Íslendingar geta ekki endalaust sætt sig við að vera í neðsta sæti hvað þetta varðar. Það skulu vera orð mín hér. Ég tel fulla ástæðu til að menn fari yfir þessi mál í efnahags- og viðskiptanefnd og velti þeim fyrir sér, en ég spái því að þau leiði til þeirrar umræðu sem ég kom inn á í ræðu minni, þ.e. að menn þurfi að leita að sterkari gjaldmiðli en við höfum.