133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

afnám verðtryggingar lána.

10. mál
[18:54]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég nefndi það í ræðu minni, sem hv. þingmaður gat um, að ef menn eru með langtímalán þá væru þau annaðhvort verðtryggð eða með breytilegum vöxtum. Það mundi enginn lána til 40 ára með föstum vöxtum.

Ef vextir eru breytilegir og hluti af vöxtunum leggst við höfuðstólinn þá er það fyrirbæri sem við þekkjum hérna. Við vorum einu sinni með verðbótaþátt vaxta, afskaplega flókið kerfi þar sem hluti af vöxtunum lagðist við höfuðstólinn. Það var bara nákvæmlega sama og verðtrygging. Þá er miklu betra að ganga hreint til verks og kalla það verðtryggingu. Það er miklu einfaldara. Menn geta haft ýmiss konar skoðun á þessu. Ef menn ekki vilja hafa breytilega vexti eða fasta vexti og verðtryggingu þá eru þeir að tala um að fara yfir í skammtímalán sem eru mjög dýr fyrir lántakendur af því að þeir þurfa þá að endurnýja lánin á fimm ára fresti eða tíu ára fresti og hlíta nýjum vöxtum. Allt bítur þetta í skottið á sjálfu sér.

Við erum að tala um að annars vegar verða lífeyrissjóðirnir með allar sínar skuldbindingar að fá góða ávöxtun og trygga, og einhverjir sparifjáreigendur sem eru því miður allt of fáir, og svo eru það lántakendur hinum megin. Við verðum að finna jafnvægi þarna á milli. Því miður eru markaðsvextir á Íslandi allt of háir vegna þess hvað fólk er gjarnt á að taka lán. Menn taka jafnvel yfirdráttarlán með yfir 20% vöxtum, eins og hér var nefnt, og skulda allt of mikið á þann hátt. Ég ráðlegg hverjum einasta manni að hætta að taka yfirdrátt því það er alveg óheyrilega dýrt.

Hér eru háir markaðsvextir enn sem komið er en ég hef þá trú að þeir muni lækka í framtíðinni. En verðbólguskoti geta menn búist við í öllum löndum, líka hér á landi.