133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

stjórnarskipunarlög.

12. mál
[19:26]
Hlusta

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góðar undirtektir við frumvarpið og vil fara fáeinum orðum um það sem fram kom í máli hans.

Í fyrsta lagi, varðandi athugasemd hv. þingmanns um mögulega löggjafarsetningu við afbrigðilegar aðstæður eins og í neyðartilviki þegar ekki tekst að koma Alþingi saman, sem er nokkuð stór vinnustaður og þarf að kalla til 63 þingmenn. Við erfiðar aðstæður gæti verið torvelt að ná nægilegum fjölda til að þingið sé starfhæft því að auk þingmanna þarf embættismenn til að ákvarðanirnar geti gengið fram.

Ég get út af fyrir sig tekið undir það að þessi atvik geta gerst, þær aðstæður sem hv. þingmaður nefndi geta komið upp og menn þurfa þá að hugsa fyrir því hvernig brugðist yrði við í þeim tilvikum til að stjórnarskráin sé sæmilega fullkomið plagg.

Ríkisstjórnin er auðvitað fámennari en Alþingi og bráðabirgðalagavaldið er í dag í höndum eins ráðherra sem yfirleitt hefur samráð við aðra í ríkisstjórninni. Það er auðvitað skilvirkara og meiri líkur á að ráðherra og ráðuneyti geti verið starfhæft við þær erfiðu aðstæður sem upp geta komið heldur en Alþingi sjálft. Ég útiloka ekki að skynsamlegt kunni að vera að hafa viðurlagaákvæði, einhvern svona hemil, ákvæði sem kveður á um hvernig bregðast skuli við í tilvikum sem þessum.

Ég varpa á hinn bóginn fram þeirri hugmynd að eðlilegra gæti verið, einmitt út frá grundvallarreglunni um þrískiptingu valdsins, að heimildin til að setja löggjöf við þessar aðstæður sé í hendi forseta Alþingis fremur en ráðherra sem er fulltrúi framkvæmdarvaldsins. Ég held að það væri eðlilegra þar sem forseti Alþingis er hluti af löggjafarvaldinu. Segja má að líkurnar á því að forseti Alþingis geti gripið til aðgerða eða sett nauðsynleg lög séu jafnmiklar og að ráðherra geti það. Ég mundi setja þá hugmynd fram til að mæta þeim sjónarmiðum.

Um annað sem fram kom í máli hv. þingmanns er að auðvitað er það alltaf gilt sjónarmið að ræða um fækkun þingmanna. Það kann að vera skynsamlegt að huga að fjölda þeirra í tengslum við breytingu eins og þá að ráðherrar færu út af þingi. Ég ekki leggja mat á það í sjálfu sér eða gefa ákveðna skoðun að þessu sinni um hvort ég telji unnt að fækka þingmönnum úr 63 niður í 51. Ég er þó ekki sannfærður um að það muni ganga vel. Þingmenn mundu við þær aðstæður öðlast aukin áhrif, kannski þau áhrif sem ætlast er til að þeir hafi eftir að hafa verið kosnir. Kjósendur mundu því sjá í þingmönnunum meiri ávinning eða meira gagn af þeim verkum sem þeir eru kosnir til og vilja kannski síður þá fækka þeim í kjördæmi sínu. Ég er því ekki viss um að það yrði auðsótt að fækka þingmönnum.

Í þriðja lagi um lagafrumvörpin, það sem kom fram í máli hv. þingmanns um það, get ég verið sammála honum um að framkvæmdarvaldið, kannski mætti segja stofnanavaldið, hefur vaxið mikið á síðustu árum og kannski meira en ráðherravaldið. Það er alveg rétt að í svo fámennu þjóðfélagi sem hér á landi þar sem er kannski ein stofnun á tilteknu sviði þá eru flestir ef ekki allir þeir sem eru sérfróðir á því sviði starfsmenn viðkomandi stofnunar. Þingið sjálft hefur ekki mikla burði til að glíma við það embættismannavald og því þarf að styrkja þingið. Það verður ekki gert nema með því að það geti sótt sérfræðiþekkingu annað en til viðkomandi stofnunar. Ég hugsa að þingið mundi gera það væri búið að skilja að framkvæmdarvald og löggjafarvald. Þingið mundi með tímanum styrkjast í viðleitni sinni til sjálfstæðrar athugunar á frumvörpum sem ráðherrar mundu áfram leggja fram og jafnframt til sjálfstæðrar athugunar á málum og eigin frumvarpsflutnings í framhaldi af þeirri styrkingu. Ég hugsa að sú breyting að ráðherrar verði ekki þingmenn mundi ein og sér leiða okkur í rétta átt hvað þetta varðar.

Síðan finnst mér athyglisverð hugmynd hjá hv. þingmanni að Hæstiréttur taki að sér með sérstökum hætti að skera úr um mál sem lúta að stjórnarskránni og verði nokkurs konar stjórnlagadómstóll með sérstökum ákvæðum í stjórnarskránni. Ég held að full þörf sé á að taka þau mál til athugunar og skipa þeim með ákveðnum hætti. Það fyrirkomulag að allir dómarar Hæstaréttar sitji í dómnum þegar slík mál væru tekin fyrir finnst mér við fyrstu sýn skynsamlegt. Ég tel að sú hugmynd sé afar athyglisverð.