133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

stjórnarskipunarlög.

12. mál
[19:39]
Hlusta

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé í fljótu bragði enga einfalda lausn á því að leysa þann ágalla sem hv. þingmaður nefnir ef við viðhöfum þingbundna fyrirkomulagið, þingbundna ríkisstjórn. Það hlýtur alltaf að vera við þær aðstæður að þeir flokkar sem eru við stjórn hafi fleirum pólitískum forustumönnum fram að tefla en sem nemur kjörnum þingmönnum. Því það er ekki bara að velja ætti ráðherrana til viðbótar við þingmenn, það eru líka aðstoðarmenn ráðherra og það eru jafnvel ráðgjafar sem eru líka ráðnir inn í ráðuneytin. Og trúnaðarmenn ráðherra eða flokkanna eru valdir til starfa að ýmsum verkefnum á vegum viðkomandi ráðherra.

Sá flokkur sem er við völd hlýtur að óbreyttu fyrirkomulagi, með þingbundnu ríkisstjórnarfyrirkomulagi, alltaf að hafa ávinning af því að vera í ríkisstjórn. Ég sé ekki alveg hvernig við komumst hjá því, nema þá hugsanlega að færa okkur yfir í það að kjósa framkvæmdarvaldið sérstaklega, þannig að það sé alveg sérhluti og þeir sem starfa þar eru þá ekki á vettvangi þingsins.

En engu að síður mundu flokkarnir væntanlega standa að framboði til framkvæmdarvaldsins og ef þeir ynnu það og væru svo líka á þingi væri auðvitað líka ávinningur af því.

Ég sé því út af fyrir sig ekki neina leið til að komast hjá því að þeir flokkar sem eru í ríkisstjórn standi betur að vígi en hinir sem ekki eru þar.