133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

stjórnarskipunarlög.

12. mál
[19:40]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna. En aðeins örstutt, í fyrsta lagi hvað varðar það sem hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði um áhrif þeirra sem eru í ríkisstjórn. Það er rétt hjá honum að þingmönnum þeirra flokka sem eru í stjórn mundi fjölga hérna, jafnvel þó við mundum fækka þingmönnum niður í 51, eins og ég nefndi.

Hins vegar held ég að ráðherrar hafi alltaf mikil áhrif og miklu meiri áhrif á tímum fjölmiðlunar en áður var. Það er alltaf mikið keppikefli að komast í stjórn. Hv. þingmaður, þó hann sé nú í stjórnarandstöðu þá skal hann ekki gefa upp vonina. Einhvern tíma á seinni hluta aldarinnar kemst hann kannski í stjórn.

En það sem mig langar til að ræða, herra forseti, er þessi dagskrá. Hún segir nefnilega heilmikið um völd og virðingu Alþingis. Hvað er á dagskránni? Fyrst er atkvæðagreiðsla um þrjú mál. Allt stjórnarfrumvörp. Það frumvarp sem er með hæsta málsnúmerið er mál nr. 367. Það er sem sagt alveg nýtt, nýkomið inn á þing og er nú til afgreiðslu í nefnd, bara strax. Þetta er stjórnarfrumvarp. Það er ráðherra sem flytur þetta. Síðan koma sex mál sem öll eru stjórnarfrumvörp. Þau eru rædd á skikkanlegum tíma dagsins. Svo kemur reytingurinn. Virðing Alþingis. Þingmannamál. Þau eru rædd sem ruslakista og mæta afgangi með tíma og athygli o.s.frv. Ég hef lent í að halda ræður kl. hálftvö eða þrjú á nóttinni og ræða að mínu mati um merkt mál, um breytingu á skattalögum eða lífeyrismál eða eitthvað slíkt. Þvílík er virðing Alþingis og sjálfsvirðing sérstaklega að þetta skuli vera svona.

Núna erum við að ræða þingmannamál með málsnúmerin 6 til 12. Þetta eru frumvörp sem voru lögð fram í byrjun þings 2. eða 3. október, eitthvað svoleiðis. Þau mega bíða. Þetta sýnir bara hvernig þrískipting valdsins er og hvernig Alþingi vinnur fyrir framkvæmdarvaldið og þau frumvörp ganga öll fyrir.

Þessu vildi ég nú koma inn í umræðuna, herra forseti, til að nefna þessa dagskrá.