133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

kjarnorkuendurvinnslustöðin í Sellafield.

141. mál
[12:18]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Varðandi athugasemd hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar um Margaret Beckett vísaði ég til hennar sem þáverandi umhverfisráðherra Bretlands, í maí 2005.

Að öðru leyti vil ég endurtaka það sem ég sagði í fyrra svari mínu. Viðbrögð íslenskra stjórnvalda munu ráðast af þeim niðurstöðum sem er að finna í þessari skýrslu og jafnframt væntanlegum ákvörðunum breskra stjórnvalda í því sambandi sem hljóta þá að lúta að aðgerðum og áframhaldandi rekstri endurvinnslustöðvarinnar í Sellafield.

Ég vil jafnframt upplýsa hv. þingmann um að ég hef rætt þessi mál endurvinnslustöðvarinnar í Sellafield við norska umhverfisráðherrann. Við höfum borið saman bækur okkar og við deilum jafnframt með fyrirspyrjanda þeim áhyggjum sem vert er að hafa af Sellafield vegna þeirrar reynslu sem fékkst og þess atviks sem varð vegna lekans. Vegna sívaxandi hugmynda og stuðnings við hugmyndir um að fjölga kjarnorkuverum, til að framleiða orku, vekur þetta almennt upp áhyggjur um hvernig farið er með úrgang frá slíkum stöðvum, hvort sem hann er grafinn eða hvernig sem menn ætla að taka á því. Það mun einungis vera starfrækt ein önnur endurvinnslustöð sambærileg við Sellafield. Það mun fyrst og fremst vera frá endurvinnslu kjarnorkuúrgangs sem hætta stafar fyrir mengun umhverfisins þannig að ég deili áhyggjum vegna þessa með hv. þingmanni.