133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

aðgerðir gegn skattsvikum.

106. mál
[12:20]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Í desember 2004 lagði þáverandi fjármálaráðherra Geir H. Haarde fram skýrslu um umfang skattsvika. Skýrslan varpaði glöggu ljósi á hvernig skipulögð skattsvik hafa aukist og nýjar skattsvikaleiðir bæst við, einkum gegnum erlend samskipti. Aðdragandi þessarar skýrslu var tillaga til þingsályktunar sem ég flutti ásamt nokkrum öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar og Alþingi samþykkti í maí 2002. Skýrslan sýnir vel hve mikill ávinningur er af öflugu skatteftirliti og aðgerðum gegn skattsvikum, m.a. í gegnum herta löggjöf, þegar áætlað er að allt að 35 milljarðar tapist af skattfé landsmanna vegna skattsvika.

Það er ljóst að með auknu fjármagnsflæði milli landa hafa skapast möguleikar á að skrá fyrirtæki erlendis og reikningsfæra umsvif fyrirtækja á erlendum vettvangi, m.a. til skattahagræðis og undanskota frá skatti. Brýnt er því að endurmeta baráttuaðferðir, skattrannsóknir og eftirlit til að mæta nýjum skattsvikaleiðum vegna opnara þjóðfélags og sívaxandi alþjóðavæðingar.

Það var líka kjarninn í niðurstöðu skattsvikanefndarinnar sem vann skýrsluna. Í henni voru settar fram fjölmargar róttækar tillögur sem munu gjörbreyta allri framkvæmd með skatteftirliti og skila að mínu mati miklu fé aftur inn í ríkiskassann sem núna er dregið undan skatti. Meginniðurstaða skýrslunnar var að skattaðilar nýti sér skattaparadís erlendis til að koma tekjum undan skatti, eignir og tekjur erlendis ekki taldar fram og erlendir aðilar notaðir til að breyta niðurstöðu skattskila. Skipulögð skattsvik kváðu hafa vaxið, m.a. með ráðleggingum sérfræðinga um bókhalds- og framtalssvik ásamt undanskotum í gegnum aðila skráða erlendis, rangfærslur í bókhaldi þar sem einkaneysla er færð sem kostnaður fyrirtækja. Hluti launa, t.d. bónus eða kaupréttur, er ekki gefinn upp til skatts og hluthöfum veitt vaxtalaus lán sem ekki eru gerð upp. Sem upplagt tilefni skattsvika er nefnt í skýrslunni að Ísland sé eitt örfárra landa sem ekki leggi skatta á vexti sem greiddir eru úr landi, fyrirtæki setji upp eignarhaldskeðju þar sem félag erlendis er látið lána hinum innlenda fé og taka hagnaðinn út í formi hárra vaxta sem eru frádráttarbærir frá innlendum aðilum og skattfrjálsir við greiðslu úr landi. Heimildir eru nýttar til skattasniðgöngu, t.d. með milligöngu eignarhaldsfélaga. Hagnaður er tekinn út úr hlutafélögunum með því að selja hlutabréf á undirverði til tengdra aðila erlendis.

Hér er getið nokkurra af meginniðurstöðum skýrslunnar og þar koma fram mjög margar róttækar tillögur til úrbóta sem ég hef ekki tíma til að lesa en ég veit að hæstv. ráðherra þekkir vel. Ráðuneytið hefur nú haft tvö ár til að vinna úr þeim hugmyndum sem þarna koma fram og því er nú spurt:

Hvað af tillögum skattsvikanefndar, sem skilaði skýrslu í desember 2004, telur ráðherra æskilegt að komi til framkvæmda? Eru áform á yfirstandandi þingi um að leggja fram tillögur um aðgerðir gegn skattsvikum, og þá hvaða?