133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

aðgerðir gegn skattsvikum.

106. mál
[12:29]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég tek þó undir með síðasta ræðumanni, mér finnst ganga nokkuð seint að hrinda þessum ágætu tillögum í framkvæmd. Það er auðvitað mjög mikilvægt að það sé unnið fast og vel að því að leggja þessar tillögur fyrir þingið til að bæta alla skattframkvæmd og setja í lög ákvæði sem spornað gætu við skattsvikum. Í húfi eru, eins og við höfum heyrt talað um, tugir milljarða króna sem skattgreiðendur hljóta að gera kröfu til að skili sér til að bæta hér lífskjör og velferð í landinu.

Ég vil þó eigna ráðherranum það sem gott er í svari hans, það kom fram góð viðleitni af hálfu ráðherrans til að fara að einhverjum af þeim tillögum sem lagðar voru fram hjá skattsvikanefndinni. Nefndi hann ýmsar tillögur sem örugglega munu vinna mjög gegn skattsvikum. Ég heyri að hæstv. ráðherra talar um að það gæti jafnvel orðið fyrir jól eða á þessu þingi og ég spyr ráðherrann hvort hann geti svarað eitthvað skýrar um það hverjar þessar tillagna gætu hugsanlega komið fram á þessu þingi. Ég held að það sé afar mikilvægt að fá sem fyrst fram þá löggjöf sem hann nefndi, að koma í veg fyrir að fjármagn sé flutt hér úr landi inn í skattaparadís með CFC-löggjöfinni og ég spyr hvort við eigum von á þeirri löggjöf á þessu þingi.

Hæstv. ráðherra nefndi ekki sérstakar sérhæfðar eftirlitsdeildir sem hafi eftirlit með stórfyrirtækjum eða ef svo var hefur það farið fram hjá mér. Ég held að þær séu afar mikilvægar og ég spyr hvort hæstv. ráðherra hafi talað í svari sínu um að lögfesta ákvæði um skyldu banka og fjármálastofnana til að láta skattyfirvöldum í té allar upplýsingar um eignir og tekjur viðskiptamanna og eins að færa saksókn og ákæruvald í skattsvikamálum til embættis skattrannsóknarstjóra svo að dæmi sé tekið. Þetta eru mjög mikilvægar tillögur (Forseti hringir.) og eru einhverjar tillögur úr skýrslunni, svo að ég spyrji bara beint út, sem ráðherrann útilokar (Forseti hringir.) alveg að hann muni flytja?