133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

aðgerðir gegn skattsvikum.

106. mál
[12:31]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Hæstv. forseti. Já, ég er svo sem ekkert hissa á því að hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur finnist ganga frekar seint í þessum efnum. Það er alveg rétt að það eru að nálgast tvö ár frá því að skýrslan kom fram en eðli málsins samkvæmt er þetta flókið mál sem þarf að fara vel ofan í, og það er verið að gera það. Eins og ég sagði áðan vonast ég til þess að geta lagt fram frumvarp á þessu þingi um ýmis af þessum efnum og þá m.a. það sem hún hefur sérstaklega lagt áherslu á, eins og varðandi CFC-löggjöfina. Ég vonast til að geta það en hins vegar er um frekar flókin mál að ræða sem þarf að vinna vel úr.

Ekkert af því sem lagt var til í skýrslunni hefur verið útilokað að svo stöddu. Það má segja að þeir hlutir sem þar koma fram séu misflóknir, misviðkvæmir og misumdeildir og sumir kannski þess eðlis að það þarf að eiga um þá samráð við ýmsa aðra aðila, en ekkert hefur verið útilokað. Ég hins vegar fagna því að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur frumkvæði að þessum umræðum og heldur manni við efnið.

Ég verð að segja eins og er hvað varðar innlegg hv. þm. Björgvins Sigurðssonar að hann virðist bara tala, hann hlustar ekki og vill frekar standa í skylmingum en í uppbyggilegum umræðum. Ég held að hann ætti að reyna að læra af eldri þingmönnum í flokki sínum, eins og hv. fyrirspyrjanda, um það hvernig svona umræður geta farið fram á uppbyggilegan hátt.