133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

ófaglært starfsfólk í heilbrigðisþjónustu.

240. mál
[12:33]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Á vordögum var talsverð ólga meðal ófaglærðs starfsfólks dvalar- og hjúkrunarheimila og var það í kjölfar þess að Reykjavíkurborg hafði hækkað verulega laun við fólk sem vann sambærileg störf í sínum stofnunum og krafðist ófaglært starfsfólk á m.a. sjálfseignarstofnunum þess að fá sambærileg laun. Var þessi deila nokkuð hörð og varð m.a. til þess að fólk sá sér það ráð vænst að fara í setuverkfall. Það urðu talsverðar deilur sem lauk með því að Samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu sendu frá sér yfirlýsingu um nokkurra launaflokka hækkun og síðan 4% launahækkun sem átti að taka gildi 1. október.

Síðan berast fréttir, og segir frá því í Morgunblaðinu þann 30. september að Samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu hafi ekki heimild til að efna samkomulagið. Er borið við að ráðherra veiti ekki fjármagn til að uppfylla þetta samkomulag og var samkvæmt fréttinni 1% klipið af launum þessa fólks. Þetta er fólk á lágum launum og manni finnst þetta sérkennilegar sparnaðaraðgerðir og einnig að setja forráðamenn þessara stofnana í svo erfiða aðstöðu. Maður veltir fyrir sér þegar þessi umræða fer af stað hvernig það verður fyrir viðkomandi forstöðumenn að efna loforð í framtíðinni þegar þeim er ekki gert kleift að efna þau loforð sem þeir hafa áður gefið. Þetta mun örugglega rýra traust starfsfólks á yfirlýsingum í framtíðinni.

Það skiptir verulega miklu máli að menn fari ekki svona að. Hér er um gríðarlega mikilvæg störf að ræða. Við höfum orðið vör við það, m.a. í heilbrigðisnefnd þingsins, að fólk sem á foreldra á dvalarheimilum hefur ítrekað kvartað yfir því að þessar stofnanir séu ekki fullmannaðar og þess vegna furðar maður sig á fréttum sem berast af aðgerðum sem þessum af hálfu stjórnvalda. Þetta verður ekki til þess að hvetja fólk til að sækja um störf eða sinna áfram þessum mikilvægu störfum ef ekki er einu sinni hægt að efna yfirlýsingar sem forstöðumenn þessara stofnana gefa. Þess vegna væri fróðlegt að fá viðbrögð hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) við þessu máli.