133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

ófaglært starfsfólk í heilbrigðisþjónustu.

240. mál
[12:38]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég veit ekki hvernig ég á að skilja svör hæstv. ráðherra. Á að skilja þau svo að þessi yfirlýsing hafi verið efnd að fullu og þá að fréttin og þær kvartanir sem mér hafa borist til eyrna séu rangar?

Mér skildist þó á svörum hæstv. ráðherra að hann ætlaði að sjá til þess að yfirlýsingin yrði efnd í lok ársins, það yrðu þá sambærileg kjör hjá starfsfólki sem ynni hjá þessum stofnunum og hjá sambærilegum hópum sem vinna hjá Reykjavíkurborg. Það er kannski aðalatriðið.

Einnig finnst mér mjög sérkennilegt að svona mál komi upp, að vafi leiki á því hvort yfirlýsingar sem gefnar eru af forstöðumönnum stofnana og heilu samtökunum í heilbrigðisgeiranum gagnvart þeim sem hafa lægstu launin séu efndar. Mér finnst það í rauninni ekki vera stjórnvöldum til sóma að svo sé.

Við verðum líka að gæta að því að hæstv. fjármálaráðherra hefur stundum verið staðinn að því að fara ekki alveg rétt með tölur og gefa til kynna að skattbyrði hafi ekki hækkað, sem hún hefur þó sannarlega gert á þá hópa sem við erum að ræða hér, og það skiptir máli upp á umræðuna hvernig við nálgumst þessa hluti. Er í rauninni verið að efna yfirlýsinguna, sem var gefin, að fullu eða ekki?