133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

ófaglært starfsfólk í heilbrigðisþjónustu.

240. mál
[12:40]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég kannast ekki við það að hafa nokkurn tíma verið staðinn að því að fara rangt með tölur og skil ekkert í hv. þingmanni að halda slíku fram. En ég fór yfir það hvaða tölur væru innifaldar í þessum samningi sem gerður var í framhaldi af þeim ákvörðunum sem teknar voru í vor, fór með þær tölur í prósentum þannig að hv. þingmaður getur bara staðreynt hvort þær séu réttar eða rangar, og það verður efnt eins og ég sagði í svari mínu.

Hins vegar er ekkert skrýtið þótt einhverjir hringi í hv. þingmann. Sumir þingmenn eru bara þeirrar gerðar að ef einhver hefur yfir einhverju að kvarta er hringt í þá og þeir fara eins og málpípur (Gripið fram í.) upp í Alþingi og útvarpa því sem einhver sagði við þá — þetta er margþekkt — algjörlega án þess að vera búnir að fara yfir það með nokkurri krítík hvort það sem við þá var sagt átti við einhvern raunveruleika að styðjast eða hvort um einhvern sérstakan sannleika var að ræða. Þetta er ekkert skrýtið.

Það er líka út af fyrir sig ástæða til að vekja athygli á því að flestar þessara stofnana eru ekki stofnanir í ríkisrekstri þannig að það er ekki ríkið sem semur fyrir þær. Þær semja sjálfar og síðan fá þær greiðslur samkvæmt því reiknilíkani sem ég nefndi. Aðstæður þeirra eru mjög ólíkar. Sumar þeirra eru með aðra starfsemi en hjúkrunarstarfsemina þannig að það er ýmislegt sem getur flotið á milli og runnið til og þingmanninum er kannski vorkunn þótt verið sé að koma með einhverjar upplýsingar til hans sem síðan hugsanlega ekki standast.

Það sem ég fór með hér áðan eru staðreyndir málsins eins og þær snúa við þeim samningum sem gerðir voru og um það hvernig fjármálaráðuneytið mun efna þá.