133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs.

153. mál
[12:50]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. umhverfisráðherra og Alþingi öllu til hamingju með það að stofnun á stærsta þjóðgarði í Evrópu er nú í burðarliðnum. Það blasir við að innan einhverra daga eða vikna verður dreift, samkvæmt orðum ráðherra, frumvarpi til laga um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og það eru að sjálfsögðu stórbrotin tíðindi. Það eru vatnaskil í íslenskri náttúruvernd og það er áfangi í Íslandssögunni sem okkur ber að fagna.

Það er auk þess að sjálfsögðu risavaxið skref í byggðamálum og atvinnumálum á öllu þessu svæði og á Íslandi öllu. Þetta er mjög jákvæð nýting á íslenskri náttúru, bæði til að vernda hana og til að opna aðgengi almennings að þessari náttúruperlu, ekki bara þeirra sem hafa yfir að ráða sérstökum tækjum og útbúnaði til að komast þangað. Þetta opnar leið fyrir almenning til að njóta þess verðmætasta og dýrmætasta á hálendi Íslands. Þetta er stórbrotinn kafli í íslenskri náttúruvernd og ég fagna honum eindregið. Það er merkilegt mál og það er ástæða til að fagna því hvað málið hefur þó gengið fram frá því að árið 1999 var samþykkt þingsályktun um málið. Auðvitað er að mörgu að hyggja eins og hvar miðstöðvarnar verða, hvernig tengslanetið og stofnananetið í garðinum verður. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kom með athyglisverða fyrirspurn áðan en fyrst og fremst er ástæða til að fagna þeim stóráfanga sem er uppi í íslenskri náttúruvernd og íslenskum atvinnu- og byggðamálum með því að stærsti þjóðgarður í Evrópu verður að veruleika innan skamms. Frumvarp um hann kemur í sali þingsins í vetur þar sem við getum rætt að sjálfsögðu miklu ítarlegar og betur hvernig á málum verður haldið og hvernig einstökum þáttum innan lands og í kringum hann verður fyrirkomið.