133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs.

153. mál
[12:53]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Ég vil enn og aftur þakka fyrirspyrjanda góð orð í garð þjóðgarðsins. Eins og kom fram í ræðu hv. fyrirspyrjanda hefur verið unnið að þessu máli frá 1999 og við erum nú að ná þeim áfanga að frumvarpið er tilbúið. Ég geri ráð fyrir að mæla fyrir því í þinginu vonandi á allra næstu dögum og síðan eftir að frumvarpið hefur verið afgreitt, sem ég geri ráð fyrir að verði gert með miklum og víðtækum stuðningi þingheims, er náttúrlega ýmis vinna eftir eins og kom fram í fyrri ræðu minni og síðan uppbygging sem gert er ráð fyrir að taki um fimm ár og töluverðu er kostað til.

Aðeins varðandi hugmynd og uppástungu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur er ljóst að stjórnsýsla þjóðgarða er með ýmsu móti hér á landi. Hugmynd hennar lýtur að því að stofna Þjóðgarðastofnun Íslands. Eitt meginmarkmiðið og eiginlega útgangspunkturinn fyrir stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs var stjórnsýslan sem frumvarpið gerir ráð fyrir með fjögur svæði sem fara með stjórn hvert á sínum hluta þjóðgarðsins og náið samstarf við landeigendur og sveitarstjórnarmenn á hverju þessara sveitarfélaga fyrir sig sem eru sjö á svæðinu. Útgangspunkturinn með Vatnajökulsþjóðgarðinum er sá að náttúruverndin er ein tegund landnýtingar og hún getur skapað okkur auð og tekjur í þjóðarbúið.

Svo er rétt að taka það fram alveg í blálokin, vegna þess að menn hafa lagt áherslu á að þetta verður stærsti þjóðgarður Evrópu þegar stofnun hans er að fullu lokið, að í sjónvarpsþætti sem sýndur var á ABC-sjónvarpsstöðinni í síðustu viku gafst áhorfendum kostur á að velja á milli og kjósa ný sjö undur veraldar og þá var, ekki Vatnajökulsþjóðgarður en samspil íss og elds á Íslandi valið meðal þessara sjö nýju undra.