133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

skilgreining vega og utanvegaaksturs.

333. mál
[12:55]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Dagný Jónsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Árið 1999 voru sett ný náttúruverndarlög og var þar ákvæði um akstur utan vega breytt frá því að banna ónauðsynlegan akstur þar sem spjöll geta hlotist af í að banna akstur utan vega nema á snjó. Nokkrir hópar eru undanskildir í reglugerð sem byggir á lögunum og hlýtur það að teljast óeðlilegt, jafnræðis verður að vera gætt.

Mikil óvissa hefur ríkt um túlkun laganna og er nýjasta dæmið dómur Héraðsdóms Suðurlands þar sem segir í niðurstöðu, með leyfi forseta:

„Í greinargerð með frumvarpi til náttúruverndarlaga segir meðal annars um 17. gr. laganna að leitast sé við að sporna frekar við akstri utan vega sem því miður er allt of algengur og stafar oftast af fákunnáttu eða tillitsleysi við náttúruna. Engin skilgreining er í náttúruverndarlögum á hugtakinu „utan vega“ eða „vegur“.“ … „Einnig kom fram í málinu að vitað væri til að margir fjölfarnir slóðar séu ekki merktir inn á kort Landmælinga og því séu slík kort ekki óyggjandi sönnun um að slíkur slóði sé ekki jafnvaranlegur og -almennur og þeir slóðar sem þegar hafa verið merktir inn á kort. Af öllu ofansögðu er ekki hægt að draga aðra ályktun og dómurinn metur það svo, að slóði sá sem ákærði ók eftir þann 3. júní 2006 og lögregla og starfsmenn Landhelgisgæslunnar stóðu hann að við akstur á, sé skilgreindur sem götuslóði eða vegur og akstur á honum sé ekki akstur utan vega. Hafi það verið tilgangur löggjafans að útiloka akstur á slíkum slóðum þá verður verknaðarlýsing í náttúruverndarlögum og umferðarlögum að vera skýrari.“

Þetta var eitt dæmi til að lýsa þeirri stöðu sem uppi er. Við búum í mjög sérstöku landi þar sem eru miklar óbyggðir og víðáttur. Víða er landið viðkvæmt fyrir umferð en víða eru lítil sem engin áhrif af henni. Mín skoðun er sú að fyrst og fremst verðum við að vera raunhæf í þeim reglum sem við setjum í umgengni gagnvart útivistarfólki eins og öðrum. Flestir vilja viðhafa eðlilega landnýtingu og því þurfum við að gæta að því að reglur þurrki ekki út skynsamlega notkun eða nýtingu á landinu. Undir það falla útivist og umferð um landið. Aðalmarkmiðið er að sjálfsögðu það að útivistarfólk fari um landið af virðingu og gætni í stað þess að ofsækja saklaust fólk, eins og því miður hefur gerst.

Væri að mínu mati nær að breyta t.d. lögunum til sama horfs og þau voru og taka á raunverulegum landspjöllum. Það er sjaldnast þannig að ofurbönn virki, heldur þarf hugarfarsbreytingu og reglur sem ekki brjóta í bága við réttlætiskennd fólks.

Af þessu tilefni vil ég spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvernig ráðherra hyggist draga úr óvissu sem ríkir um skilgreiningu vega vegna banns við utanvegaakstri. Eru uppi áætlanir um slíkt? Ég vil í því sambandi leggja áherslu á samráð við hagsmunasamtök útivistarfólks.