133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

skilgreining vega og utanvegaaksturs.

333. mál
[13:03]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Hún dregur ljóslega fram ráðaleysi stjórnvalda. Hér er í embætti þriðji hæstv. umhverfisráðherrann á örfáum árum og það er ekki einu sinni hægt að setja reglur um utanvegaakstur, hvað þá annað. Gefið hefur verið út leiðbeinandi kort og síðan gefur einhver klúbbur út annað kort. Af þessu máli sést, sem er vissulega mjög mikilvægt, að það er ekki einu sinni hægt að taka á litlum málum. Ég lýsi yfir furðu minni á þessu.

Þetta endurspeglar líka áherslu ríkisstjórnar á umhverfismál. Það er ekki hægt að taka á utanvegaakstri, hvað þá öðru. Mér finnst þetta með ólíkindum og eins að hlýða á hæstv. ráðherra tala um leiðbeinandi kort og fabúlera um hvað er mögulegt og ómögulegt í þessum málum. Þetta er einfalt mál, að taka á akstri utan vega (Forseti hringir.) en það virðist því miður ríkisstjórninni algerlega ofviða.