133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

skilgreining vega og utanvegaaksturs.

333. mál
[13:04]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að taka undir þakkir til hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka málið upp. Þetta er ansi flókið og yfirgripsmikið mál og ástæða til að fara vel yfir það í ljósi sögunnar.

Nú orðið er mikil umferð um hálendi Íslands, akandi, ríðandi og gangandi ferðamanna og því er mjög nauðsynlegt að samræma og ljúka skilgreiningu slóða utan vega. Auðvitað er til staðar mikill fjöldi slóða og vega utan viðurkenndra vega til staðar. En það er bagalegt þegar farið er í mál gegn einstaklingum og þeir jafnvel dæmdir fyrir utanvegaakstur fyrir að fara slóð, árfarveg eins og hv. fyrirspyrjandi sagði mér frá áðan, sem menn hafa notað árum saman og brjóta að sjálfsögðu ekki nein lög með því.

En það þarf að skilgreina þetta og skýra vel. Það er ástæða til að taka vel til í þessum málum. Þetta er flókið og yfirgripsmikið mál og mikilvægt að samræma og ljúka kortagerð hvað það varðar eins fljótt og auðið er.