133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

skilgreining vega og utanvegaaksturs.

333. mál
[13:08]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Ég ítreka þakkir mínar til hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur fyrir þessa fyrirspurn og heiti henni því að við munum halda áfram þeirri vinnu sem byrjuð er, m.a. að fullgera kort sem lagt var fram til leiðbeiningar á sínum tíma. Eins og fram kom í fyrri ræðu minni varð kortið, vegna aðstæðna og tímasetningar, ekki betra en raun ber vitni, sérstaklega vegna þess að það voru ekki fleiri sveitarfélög sem brugðust við. En samstarfið við sveitarfélögin er nauðsynlegt í þessum efnum vegna skipulagsvinnu sveitarfélaganna.

Ég tek undir það að þessari óvissu verður að linna. Það verður að leysa þessa flækju og við verðum að ná að kortleggja vegi og slóða og jafnframt miðla þeim upplýsingum til ferðamanna sem fara um þá hluta landsins sem eru fyrir utan vegakerfi Vegagerðarinnar.

Eins og ég sagði þarf samstarf á milli ráðuneytisins, þeirra stofnana sem hlut eiga að máli, sveitarfélaga, landeigenda og félagasamtökum sem hagsmuni hafa af þessu. Ég mun jafnframt halda áfram góðu samstarfi sem við höfum átt við ferðaklúbbinn 4×4 og Vélhjólaíþróttaklúbbinn Vík. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það er óásættanlegt að reglur séu ekki nógu skýrar þannig að fólk sem ferðast í góðri trú verði það á að brjóta þær án þess að nokkur ásetningur sé fyrir hendi. Við megum ekki hafa reglurnar þannig að þær brjóti í bága við réttlætiskennd fólks.