133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

kjör framkvæmdastjóra norrænu ráðherranefndarinnar.

305. mál
[13:13]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson beinir til mín þremur spurningum sem lúta að kjöri framkvæmdastjóra norrænu ráðherranefndarinnar. Ég vil leitast við að svara þessum þremur spurningum.

Þegar núverandi framkvæmdastjóri norrænu ráðherranefndarinnar tilkynnti 24. ágúst að hann sæktist ekki eftir framlengingu á samningi sínum, sem rennur út um áramótin 2006–2007, fór hæstv. forsætisráðherra þess á leit við Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi forsætisráðherra, að hann gæfi kost á sér til starfsins og féllst hann á þá umleitan.

Forsætisráðherra ræddi í framhaldi af því símleiðis við kollega sína í Noregi, Finnlandi, Danmörku og Svíþjóð og greindi frá því að Ísland sæktist eftir stöðunni og hvern Ísland byði fram sem nýjan framkvæmdastjóra norrænu ráðherranefndarinnar. Samstarfsráðherra sá sem hér stendur kynnti framboðið á lokuðum fundi norrænu samstarfsráðherranna þann 6. september en þá lá fyrir að Finnar mundu einnig sækjast eftir stöðunni og byðu fram Jan Erik Enestam, samstarfsráðherra Finnlands.

Ráðherrarnir voru á fundinum sammála um að ákvörðun um næsta framkvæmdastjóra skyldi byggjast á mati á hæfni og reynslu umsækjenda. Á fundi samstarfsráðherra 23. október kom fram að önnur lönd en Ísland og Finnland sæktust ekki eftir stöðunni og það sem var umfram venju, þ.e. hafði ekki verið gert áður, var að samstarfsráðherrarnir ræddu málið sín á milli og ákváðu að ræða við báða umsækjendurna eða kandídatana, eins og það heitir á norrænu máli, á fundi 30. október þar sem kæmi fram, í viðtölum við þá, m.a. framtíðarsýn þeirra á norrænt samstarf. Að loknum þeim viðræðum 30. október var ákveðið á fundi samstarfsráðherranna að ganga til samninga við Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi forsætisráðherra.

Varðandi spurninguna um hvort ég telji að vinnubrögð í málinu muni hafa áhrif á starfsemi Norðurlandaráðs í framtíðinni þá vil ég svara því skýrt að ég tel að vinnubrögðin í þessu máli muni ekki hafa annað en jákvæð áhrif á starfsemi Norðurlandaráðs til allrar framtíðar.