133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

mislæg gatnamót á mótum Þingvallavegar og Vesturlandsvegar.

121. mál
[13:24]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (U):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs til að velta upp fyrirspurn um vegamótin á Þingvallaafleggjara og Vesturlandsvegi. Þann 4. september sl. afhentu fulltrúar íbúa í Mosfellsdal hæstv. samgönguráðherra undirskriftalista 180 íbúa í Mosfellsdal þar sem skorað var á yfirvöld vegamála að setja upp hringtorg á mótum Þingvallaafleggjara og Vesturlandsvegar. Jafnframt var þar rætt um hraðahindranir á Þingvallavegi í Mosfellsdal.

Að sögn eins forsvarsmanna þeirra dalbúa, Signýjar Jóhannsdóttur, er mikið um flöskuhálsa sem myndast á þessum gatnamótum Þingvallavegar og Vesturlandsvegar þegar umferðin er mikil, þá einkum um helgar. Oft myndast langar biðraðir þeirra sem eru að reyna að fara úr dalnum inn á Vesturlandsveg. Hér segir Signý orðrétt, með leyfi forseta, varðandi kröfu um hringtorg að „stundum þurfi fólk að bíða í 15–20 mínútur áður en hægt er að beygja frá Þingvallavegi og í átt til Reykjavíkur um helgar. Umferðin hefur aukist jafnt og þétt eftir að Hvalfjarðargöngin komu. Þegar við höfum spurt um þetta mál höfum við fengið þau svör að það eigi að færa Vesturlandsveginn nær Leirunum. Það er búið að tala um það í 20 ár og við erum orðin leið á þessu.“

Eins og allir vita er mjög þung umferð þarna á Vesturlandsvegi í báðar áttir og hefur hún aukist töluvert eftir að Hvalfjarðargöngin komu til sögunnar. Undirritaður sóttist eftir upplýsingum frá samgönguráðuneytinu og var vísað á Vegagerðina. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk stendur ekki til að gera neitt sérstakt þarna, eins og orðað var. Það er ekki á neinni áætlun að gera þarna hringtorg en mér var bent á að í september hefði borist beiðni frá samgönguráðuneytinu um að athuga þarna möguleika á gerð hringtorgs.

Miðað við þessar upplýsingar frá Vegagerðinni virðist Mosfellingum, eða dalbúum eins og þeir eru kallaðir inni í Mosfellsdal, hafa tekist með undirskriftasöfnun og áskorun til ráðherra að hreyfa við málinu en ég velti fyrir mér, frú forseti, hver staðan sé núna. Hyggst hæstv. samgönguráðherra bregðast hratt og vel við þessari beiðni? Ég veit ekki til þess að þarna hafi orðið nein alvarleg bílslys en umferðarþunginn eykst stöðugt, áhættan er mikil og því spyr ég hæstv. samgönguráðherra:

Stendur til að gera mislæg gatnamót eða hringtorg á mótum Þingvallavegar og Vesturlandsvegar? Ef svo er, hvenær er áætlað að þeim framkvæmdum ljúki?