133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

mislæg gatnamót á mótum Þingvallavegar og Vesturlandsvegar.

121. mál
[13:32]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta er svolítið lýsandi fyrir umræður um vegamál, hér er verið að tala um einstakt hringtorg. Stefnan í vegamálum er í þoku. Hæstv. ráðherra var á fundi í morgun þar sem hann lýsti því yfir að það þyrfti stórátak í vegagerð. Það er svo sannarlega ástæða til þess að taka eftir því þegar hæstv. samgönguráðherra leggur mat á stöðu síns eigin verkefnis sem er auðvitað að vinna að vegagerð á Íslandi.

Það er svo sannarlega ástæða til að vinna stórátak í vegagerð á Íslandi. Okkur hefur miðað mjög hratt aftur á bak á síðustu árum ef við setjum málefnin í samhengi við þörfina. Ég spyr þess vegna hæstv. samgönguráðherra: Eru að fæðast einhverjar áætlanir um að klára þau málefni sem um er að ræða á þessu svæði, veginn út frá Reykjavík í norður og vestur og veginn (Forseti hringir.) frá Reykjavík í austurátt?