133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

mislæg gatnamót á mótum Þingvallavegar og Vesturlandsvegar.

121. mál
[13:33]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Þetta verkefni sem minnst er á er mjög brýnt og ber að skoða rækilega og fara í sem allra fyrst. Það sem ég vil þó vekja athygli á er að nú á þessu ári er hlutfallið af úthlutun ríkissjóðs til vegamála tvisvar sinnum lægra en það var í upphafi kjörtímabilsins. Þá var það 4,4% en nú er það 1,5% þannig að það fer hlutfallslega miklu lægri … (Gripið fram í.) Í krónum? spyr hv. þingmaður. Það er einnig lægra. Það voru rúmir 4 milljarðar 2003 en á þessu ári fyrirhugað að verði 2,8 milljarðar til viðhalds.

Þetta eru tölur frá upplýsingaþjónustu Alþingis, fengnar í þessu húsi. Ég vonast til þess að hv. þingmenn hristi ekki hausinn hér og efist um þessar tölur sem koma frá ábyrgum aðilum. (Forseti hringir.) Við eigum að ræða þessa hluti eins og þeir eru en ekki í einhverri kosningatölfræði eins og hæstv. ráðherra er tamt.