133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

Suðurlandsvegur.

137. mál
[13:42]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Hv. þingmenn spyrja:

„Hyggst ráðherra heimila nýstofnuðu einkahlutafélagi, Suðurlandsvegi ehf., einkaframkvæmd við tvöföldun Suðurlandsvegar?“

Ég hef enga ákvörðun tekið um heimildir til handa Suðurlandsvegi ehf. hvað varðar fjármögnun framkvæmda við Suðurlandsveg enda verður slík ákvörðun ekki tekin nema á grundvelli samgönguáætlunar sem Alþingi hefur samþykkt og á grundvelli laga sem mundu veita slíka heimild. Í gildandi lögum er ekki um slíka heimild að ræða. Eins og gerðist með Hvalfjarðargöngin á sínum tíma var um þá framkvæmd sett sérstök löggjöf. Slík ákvörðun verður ekki tekin nema að athuguðu máli og þá með hliðsjón af því hve mikið ríkið getur reitt fram af fjármunum vegna þessarar framkvæmdar yfirleitt. Þá verður að líta til þess að vart er um nokkurn hliðarvalkost að ræða fyrir vegfarendur sem því neyddust til að gangast undir þá gjaldtöku sem einkaframkvæmd byggir m.a. á. Komi til þess að velja leið einkaframkvæmdar verður væntanlega um útboð að ræða og ekki hægt að tryggja einu fyrirtæki verkið. Ég tel að einkaframkvæmd komi mjög vel til greina en það yrði að vera að undangengnu útboði þar sem allir aðilar hefðu jafnan rétt til að bjóðast til að vinna það verk, fjármagna það eða vinna á þeim nótum sem útboðið gerði þá ráð fyrir.

Þá er í öðru lagi spurt: „Hvaða leiðir telur ráðherra færar til að fjármagna framkvæmdina?“

Margar leiðir finnast til þess að fjármagna framkvæmdir á borð við þessa. Hver verður fyrir valinu hlýtur að byggja á hve auðvelt er að afla fjár og hvaða kostnaður er við það. Hagkvæmnisrök og umferðaröryggi ráða fyrst og fremst ferðinni.

Ég vísa að lokum til þess að nú er að störfum nefnd á mínum vegum sem hefur það verkefni að skoða í grundvallaratriðum kosti einkaframkvæmdar í samgöngumálum og ég mun hafa þá vinnu til hliðsjónar þegar mótuð verður stefna um það atriði í tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun.

Að öðru leyti, virðulegi forseti, vil ég segja um þetta að ég tel að við eigum að leita allra leiða til að hraða framkvæmdum við uppbyggingu Suðurlandsvegar um Hellisheiði. Þetta er hins vegar nokkuð stórt verk. Tvöföldun vegarins frá Rauðavatni að Selfossi kostar á bilinu 5–7 milljarða, eins og kom fram í svari mínu til hv. þingmanns fyrr á þingi, eftir því hvaða útfærslur yrðu þar á tengingum, hvort það yrðu mislæg gatnamót, hringtorg eða aðrar lausnir. Það þarf að meta. Endurbygging þessarar leiðar með 2+1 aðferðinni með víraleiðurum sem ég heyri að hv. þingmaður efast um mundi hins vegar kosta 2 milljarða.

Þarna þarf að vega kalt umferðaröryggisþáttinn og framkvæmdahraðann. Við fórum af stað með úrbætur á Hellisheiðinni, í Svínahrauninu, með þessari sænsku útfærslu á 2+1 vegi sem nokkur reynsla hefur fengist af. Það blasir við að gera þarf endurbætur á þeirri útfærslu, breikka veginn, og Vegagerðin mun væntanlega þegar slíkur vegur verður byggður upp í framtíðinni byggja hann upp breiðari. Afkastageta slíks vegar er talin vera 10–12 þús. bílar á sólarhring þannig að það er töluvert mikil afkastaaukning að sjálfsögðu miðað við þegar um eina akrein í hvora átt er að ræða.

En hvað um það, ég tel að við þurfum að skoða þetta allt saman við endurskoðun á samgönguáætluninni. Aðalatriðið er að við reynum að ná sem lengst í þessari uppbyggingu en til þess þarf aukið fjármagn. Eigum við að taka það úr öðrum verkefnum, eigum við að taka lán eða eigum við að fara í einkaframkvæmd og (Forseti hringir.) selja aðgang að þessum vegi? Ég tel að á næstunni verði fjallað um það.