133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

Suðurlandsvegur.

137. mál
[13:55]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég heyrði ekki betur en hæstv. samgönguráðherra viðurkenndi að 2+1 leiðin á Suðurlandsvegi væri gölluð og þyrfti að endurbæta hana. Hæstv. ráðherra sagði að komið hefði í ljós að þessi sænska aðferð sem menn studdust við og notuðu gengi ekki við þessar aðstæður, það þyrfti að breikka svona vegi ef nota ætti sömu aðferðir og Svíarnir nota. Ég vil því skora á hæstv. ráðherra að í stað þess að fara að leggja til einhverja fjármuni í að breikka þessa gölluðu 2+1 leið að ganga alla leið og viðurkenna það í eitt skipti fyrir öll og það sé full þörf á því að reisa þarna alvöruveg, veg sem er með tveimur akreinum í hvora áttina.

Hv. þm. Kjartan Ólafsson sagði að það væri þverpólitísk samstaða og einhugur um þetta verk meðal þingmanna Suðurkjördæmis. Það lítur oft og tíðum út að svo sé. En ég verð að segja alveg eins og er að á síðasta þingi þegar við þingmenn Samfylkingarinnar ásamt hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni lögðum fram þingsályktunartillögu sem gekk út á það að á fjórum árum yrði gengið í það að klára þá framkvæmd að kominn yrði upplýstur tvöfaldur vegur yfir Hellisheiði á árinu 2010, þá náði samstaðan ekki lengra en svo að þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins voru ekki tilbúnir til þess að vera meðflutningsmenn á þingsályktunartillögu okkar. Það verður að gera þá kröfu til þingmanna að þeir tali eins utan þingsalar og innan en ekki sitt hvorri röddu eftir því hvar þeir eru staddir.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að það eigi að gera þetta. Það stefnir í slag við ríkisstjórnina af því að hæstv. samgönguráðherra telur að það sé ekki hægt að gera þetta núna. Kostnaðurinn er upp á 5–7 milljarða þar sem tjónakostnaðurinn einn er um milljarður á ári. Það er ekki spurning, (Forseti hringir.) það á að ráðast í þessa framkvæmd strax.