133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

hjólreiðabrautir.

379. mál
[14:12]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Mér er ljúft og skylt að taka þátt í þessari umræðu. Sem fyrrverandi forseti í Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands veit ég að málefni hjólreiðamanna hafa komið þar inn á borð og ég hef orðið var við að þeir eiga undir högg að sækja. Þeir hafa verið hornreka víða og þá ekki síst í aðstöðu til að stunda hjólreiðar hvort sem það er gert í íþróttaskyni eða sem almennur samgöngumáti. Það er í þessu eins og öðru, það er spurningin hvort kemur á undan hænan eða eggið. Það er náttúrlega eðlilegt að hjólreiðar séu ekki mjög útbreiddar á Íslandi af þeirri einföldu ástæðu að aðstæður hafa ekki verið þeim hentugar eða vinveittar og þess vegna lýsi ég yfir ánægju minni með þá yfirlýsingu sem hæstv. ráðherra hefur gefið um að bragarbót verði gerð þar á. Ég held að (Forseti hringir.) það verði til mikils stuðnings fyrir hjólreiðafólk og líka til að vinna gegn of mikilli notkun bifreiða.