133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

hjólreiðabrautir.

379. mál
[14:14]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Allt hefur sinn tíma má segja og að þetta verkefni sem snýr að hjólreiðum og stígum fyrir þá sem fara um á hjóli hafi setið á hakanum er vegna þess að önnur brýnni verkefni hafa verið talin þurfa vera framar og á undan, af þeim mörgu verkefnum sem legið hafa fyrir.

En ég vil vísa til þess sem segir í skýrslu um umhverfismat áætlana vegna samgönguáætlunar fyrir árin 2007–2018, en áætlunin hefur verið nefnd nokkrum sinnum í dag. Það er unnið að henni á vegum samgönguráðuneytisins og samgönguráð er að vinna að undirbúningi hennar. Hluti af því starfi er lögum samkvæmt að meta áætlunina, umhverfismeta hana, og núna er á netinu umhverfismatsskýrsla vegna þessarar áætlunar og drög að samgönguáætlun þar sem eru nefnd verkefni, ekki röðun verkefna heldur verkefni og stefnan. Þar kemur eftirfarandi fram sem stefna samgönguráðuneytisins hvað varðar hjólreiðar:

„Til að stuðla að frekari uppbyggingu göngu- og hjólastíga er mikilvægt að stuðla að gerð hjóla- og göngustíga meðfram stofnvegum í þéttbýli. Á sama hátt verði skoðuð þátttaka ríkisins í gerð hjóla- og göngustíga meðfram fjölförnustu stofnvegum í dreifbýli.“

Þetta er stefnumótun sem kemur fram í samgönguáætlunardrögunum og eftir henni er unnið í ráðuneytinu.