133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

starfslok starfsmanna varnarliðsins.

136. mál
[14:21]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson vekur hér upp umræðu á mjög svo þörfu málefni. Ég hef áður sagt það í þessum ræðustól og víðar að ég tel skilyrðislaust að íslenska ríkið hefði átt að gera einhvers konar starfslokasamninga við þá íslensku starfsmenn sem unnu á vegum Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli. Þetta eru mjög sérstakar aðstæður, og sérstakar aðstæður kalla á sérstakar lausnir. Þetta ágæta fólk sem vann hjá bandaríska hernum var ekki bara að vinna hjá bandaríska hernum. Þó að það fengi kannski laun sín þaðan vann það líka í þágu okkar Íslendinga. Þess vegna tel ég að okkur beri siðferðisleg skylda til að veita þessu fólki sómasamleg starfslok.

Ég kalla líka eftir því að íslensk stjórnvöld geri könnun á því hvað varð um þetta starfsfólk, í hvernig störf það hefur farið og hvort það hafi fengið betri eða verri störf eftir að það lauk vinnu sinni hjá Bandaríkjaher.