133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

sprengjuleit.

206. mál
[14:28]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég ber hér fram fyrirspurn um sprengjuleit og sprengjueyðingu. Fyrirspurnin er sett fram í framhaldi af brottför bandaríska varnarliðsins frá Íslandi og þeim samningum sem íslenska ríkið gerði í því efni. Við vitum reyndar hvernig gekk í samningunum við Bandaríkjamenn og höfum talað um það áður hvernig samningatæknin var hjá Íslendingum og til hvers sú samningatækni leiddi. Hún leiddi til þess, eins og fram hefur komið, að bandaríski herinn skilur eftir ákveðnar eigur en ber enga ábyrgð á því að hreinsa til eftir sig á menguðum svæðum, sama í hvaða formi sú mengun er. Við vitum að hún er mismunandi. Það eru sorphaugar sem þarf að eiga við, jarðvegur sem hefur orðið fyrir olíuleka en síðan eru ákveðin svæði á Íslandi þar sem enn liggja virkar sprengjur eftir æfingar varnarliðsins.

Mikið hefur verið þrýst á ríkið í gegnum árin að eyða fjármunum í sprengjuleit og eyðingu á virkum sprengjum en á sama tíma og íslenskir sprengjusérfræðingar voru við leit og eyðingu á sprengjum á átakasvæðum heimsins voru skólabörn að finna virkar sprengjur hér á Íslandi og leika sér að þeim. Í framhaldi af einum slíkum atburði voru sett upp viðvörunarskilti á vinsælu útivistarsvæði á Strandarheiði og síðan fór fram yfirborðsleit sem skilaði talsverðu magni af sprengjum í eyðingu. Þó er alveg ljóst að mikið verk er enn þá óunnið í leitinni og eyðingunni, ekki bara á Strandarheiði heldur víðar þar sem herinn stundaði æfingar sem fólu það í sér að skjóta sprengjum á skotmörk, sprengjum sem ekki sprungu í öllum tilvikum heldur grófust í jörð. Frostlyfting og önnur náttúruleg fyrirbrigði lyfta síðan þessum stórhættulegu hlutum upp á yfirborðið þar sem börn geta rekist á þá með hugsanlegum afleiðingum sem óþarft er að útskýra.

Það er í rauninni ótrúlegt hversu illa hefur gengið að fá íslenska ríkið til að ganga í það verk að hreinsa þessi svæði og stundum hefur manni fundist að partur af tregðunni blandist að einhverju leyti því að fólki innan kerfisins fyndist að Bandaríkjamenn eða bandaríski herinn ætti að taka meiri þátt í því að hreinsa svæðin og þar af leiðandi hafi ekki orðið meira úr verki en raun ber vitni. En nú er því ekki til að dreifa, nú er ábyrgðin skýr. Búið er að semja við Bandaríkjamenn um að þeir beri enga ábyrgð, hún sé að öllu leyti hjá stjórnvöldum. Þau hafa tekið við menguðum svæðum og það er þeirra að hreinsa þau. Við verðum því að ætla að núna liggi fyrir upplýsingar um gerð þessara svæða, staðsetningu og umfang á menguðum svæðum, þar með talið sprengjusvæðum. Utanríkisráðuneytið hlýtur að hafa gert áætlun um hvernig á að hreinsa upp þessi svæði og því er spurt:

1. Er vitað á hvaða svæðum virkar sprengjur liggja eftir æfingar Bandaríkjahers á Íslandi? Ef svo er, hvar eru þessi svæði og hver er stærð þeirra?

2. Hver mun sjá um sprengjuleit og eyðingu á þessum svæðum?

3. Hvenær er áætlað að hreinsun verði lokið og hver er áætlaður kostnaður við leit og eyðingu?