133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

sprengjuleit.

206. mál
[14:34]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Nú þegar varnarliðið er farið jafnskyndilega og raun ber vitni er ljóst að íslensk stjórnvöld bera ábyrgð á því svæði sem áður var talið varnarsvæði. Það er tvennt sem segja má að mikilvægt sé að bregðast við með skjótum hætti. Annars vegar að koma þeim mannvirkjum sem eiga að standa áfram í gagnið og skapa þar með verðmæti. Hins vegar að sinna umhverfismálunum og þá ekki síst því sem hér er til umræðu, þ.e. meintum sprengjum, einfaldlega af því það snertir öryggi. Það er mikið áhyggjuefni þegar umferð um þessi svæði er orðin frjálsari en hún var, þegar svæðið er ekki lengur varnarsvæði skapast þar óneitanlega hætta. Ég vil þess vegna taka undir brýningu um að þessu verki verði hraðað sem mest má, þó ekki væri nema af slíkum öryggisástæðum. Þegar búið er að tryggja öryggið eins og hægt er í þessum efnum þá koma hinir þættirnir á eftir, (Forseti hringir.) eins og að taka mannvirki í notkun.