133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

sprengjuleit.

206. mál
[14:35]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson) (Sf):

Herra forseti. Við verðum að fara fram á ákveðnari svör frá hæstv. ráðherra en ráðherrann gaf í ræðustólnum áðan. Ég verð þó að segja að það kemur mér á óvart að um sé að ræða 73 svæði á Íslandi þar sem ætla má að hægt verði að finna lifandi og virkar sprengjur, 73 svæði á 24 þúsund hekturum lands.

Ég hefði haldið að full ástæða væri til að hafa meiri áhyggjur af þessu en mér sýnist stjórnvöld hafa því það að vegfarendur geti rekist á eina lifandi sprengju í alfaraleið er einni sprengju of mikið. Við getum ekki tekið svona létt á þessu máli eins og mér heyrist hæstv. ráðherra gera. 73 svæði á 24 þúsund hekturum lands um allt land en að mestu á Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Maður hefði haldið að í samningunum við varnarliðið lægi einhvers konar vinna að baki þar sem menn gerðu sér grein fyrir því hvort íslenska ríkið væri að ná viðunandi samningi eða ekki, eitthvað sem segði að til að koma þessu í viðunandi horf, til að tryggja öryggi íslenskra borgara, þarf að fara í svo og svo viðamikla vinnu við sprengjuleit og eyðingu og það mun kosta svona mikið og við verðum að gjöra svo vel að taka það inn í þessa samninga sem við erum í. Mér heyrist að það hafi ekki verið gert í samningunum við Bandaríkjamenn.

Hvað varðar það sem hv. þm. Hjálmar Árnason sagði áðan um meintar sprengjur, þá er ekki um meintar sprengjur að ræða. Þetta eru raunverulegar sprengjur, þær liggja þarna, það er vitað af þeim. Það þarf að fara í umfangsmikla leit og hreinsun á þessum svæðum. Annað er algjörlega óásættanlegt.