133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

sprengjuleit.

206. mál
[14:37]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Það er alls ekki svo að ég taki þessu með einhverri léttúð. Mér finnst þetta vera stórmál. En ég get nefnt að t.d. í Danmörku eru sprengjusérfræðingar kallaðir til næstum því daglega vegna sprengna sem finnast á landi eða koma í veiðarfæri. Það er því ekki eins og þetta sé bara vandamál hjá okkur.

Ég vil gjarnan setja meiri kraft í þetta mál og tel það brýnt. Það er hins vegar ekki auðvelt að áætla hversu langan tíma það getur tekið að hreinsa æfingasvæðin. Til viðmiðunar þá er gert ráð fyrir að ljúka hreinsun 200 hektara á Patterson-svæðinu fyrir árslok 2007 og talið er að hreinsa þurfi 500 hektara á Vogaheiði og að því verði lokið 2012. Á næstu fimm árum er mögulegt að gera úttekt á öllum svæðum jafnframt því sem lokið verður við hreinsun verstu svæðanna.

Til að þetta verði framkvæmanlegt þarf að leggja til bæði mannafla og fjármuni eins og augljóst er. Sérstök áhersla yrði þá lögð á svæði nálægt byggð og vinsæl útivistarsvæði á næstu tveimur árum. Áætlun um framhald hreinsana yrði samin með tilliti til upplýsinga sem fram kunna að koma og hvernig til tekst við hreinsun. Til að þetta verði mögulegt þarf að styrkja sprengjueyðingardeild Landhelgisgæslunnar, eins og augljóst er, með því að fjölga þar stöðugildum. Það er eitt af því sem fara þarf í viðræður um af hálfu stjórnvalda hvernig best verður að þessum málum staðið á næstu árum. En ég tek undir það sem hér hefur komið fram að þetta er mál sem mikilvægt er að leggja áherslu á.