133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

skólagjöld í opinberum háskólum.

152. mál
[14:50]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Um árabil hefur háskólastigið íslenska verið í fjárhagskreppu, sérstaklega ríkisreknu háskólarnir. Skemmst er þess að minnast þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar um Háskóla Íslands kom fram í fyrra, þá var sagt að annaðhvort fengju skólarnir verulega aukin framlög frá hinu opinbera eða heimildir til innheimtu umtalsverðra skólagjalda og fjöldatakmarkana ættu þeir að halda núverandi stöðu sinni.

Skýrsla OECD frá því í haust um framlög Íslendinga til menntamála var mjög merkileg, og sláandi um sumt. Hún staðfestir t.d. hrópandi mun á framlögum ríkisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar til skólamála. Skólastigin tvö sem sveitarfélögin reka eru meðal þess hæsta en framhalds- og háskólastigið sem ríkið rekur töluvert langt fyrir neðan meðaltal og framlög á hvern nemanda samkvæmt skýrslunni hafa farið minnkandi á síðustu árum. Þó svo að aðsókn hafi mikið aukist, að sjálfsögðu, eins og allir vita, í háskólana hafa framlög á hvern nemanda farið minnkandi. Þetta er áfellisdómur yfir yfirvöldum menntamála enda eru margar menntastofnanir á þessum stigum í alvarlegri fjárhagsstöðu.

Heildarútgjöld Íslendinga til menntamála eru með því hæsta sé miðað við þjóðarframleiðslu en við erum hins vegar einungis í 15. sæti þegar borin eru saman útgjöld á hvern nemanda frá grunnskóla til háskóla sem er raunverulegasti mælikvarðinn á fjárfestingar í menntun og útgjöldum til skólamála. Framlögin hafa hækkað verulega á hvern nemanda á grunnskólastigi en lækkuðu milli áranna 2002 og 2003 til framhalds- og háskóla. Þannig er Ísland í 3. og 6. sæti yfir grunnskóla og leikskóla, skólastigin sem sveitarfélögin reka, en í hópi lægstu þjóða í framlögum til háskóla og framhaldsskóla, 21. sæti á háskólastigi og því 19. hvað varðar framhaldsskólana.

Það er augljóst mál að ef við eigum að ráðast í umfangsmikla menntasókn, þar sem t.d. er talið að hvert viðbótarár í skóla hafi í för með sér efnahagsleg áhrif á bilinu 3–6% fyrir þjóðarbúið og í kringum 22% tekjuauka af því að ljúka gráðu í háskóla, þarf að koma til mikil fjárfesting af hálfu hins opinbera í skólunum, ekki síst háskólunum, og ekki síst rannsóknaþætti háskólanna. Auðvitað þurfa einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir að koma að þessu fjárfestingarátaki en hið opinbera þarf fyrst að lyfta sínum framlögum eða koma með einhverjum hætti að þessu máli. Í ljósi stöðunnar spyr ég hæstv. menntamálaráðherra:

Er til athugunar í ráðuneytinu að veita opinberum háskólum heimild til innheimtu skólagjalda? Ef svo er, hve há verða gjöldin og fyrir nám í hvaða greinum? Ef svo er ekki, hvernig stendur þá til að mæta fjárþörf skólanna og fjármögnun þeirra?