133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

stuðningur atvinnulífsins við háskóla.

217. mál
[15:05]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sæunn Stefánsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Það er skemmtileg tilviljun að þessar fyrirspurnir skuli nefndar saman því umræðuefnin eru svo sannarlega nátengd. Ég held að við höldum hreinlega umræðunni áfram.

En það hefur ekki farið fram hjá neinum að það hefur orðið merkileg þróun í menntakerfi okkar og þá sérstaklega á háskólastiginu. Um leið og háskólum hefur fjölgað, og nefni ég þar Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Bifröst sem dæmi, hefur nemendum fjölgað stórlega eins og við ræddum rétt áðan.

Á árunum 2000–2005, eftir þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér, hefur nemendum fjölgað um rúman helming. Tölurnar eru eflaust orðnar hærri fyrir þetta ár en ég sá það ekki í þeim gögnum sem ég hef undir höndum.

Þróunin hefur því verið stórkostleg. Við höfum verið að hækka menntunarstig þjóðarinnar, fjárfest í framtíð okkar því þróun íslensks mannlífs og atvinnulífs, nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi byggist á því að í landinu séu öflugir háskólar og aðgengi að þeim og aðsókn sé góð.

Framlög ríkisins til háskólanna hefur aukist mikið eða um 80% frá árinu 1998 til ársins 2005. Hér er um að ræða stóraukin framlög til háskólastigsins en fjárþörf skólanna er mikil og hún er ef til vill meiri en við höfum getað uppfyllt.

Hér áðan svaraði hæstv. menntamálaráðherra fyrirspurn um afstöðu hennar til skólagjalda og eins og kom fram er það ekki stefna ríkisstjórnarinnar sem nú situr að taka upp skólagjöld í ríkisreknum háskólum. Það er alveg skýrt og það hefur verið og er stefna þeirrar ríkisstjórnar sem Framsóknarflokkurinn hefur átt aðild að.

Mér fannst hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson reyndar vera að gæla aðeins við hugmyndir um skólagjöld. Þannig að maður kallar kannski eftir skýrari stefnu Samfylkingarinnar í þeim málum hér seinna.

En ég tel að það þurfi að leita leiða til að fjölga fjármögnunarmöguleikum háskólanna og hæstv. menntamálaráðherra hefur talað um að auka eigi samstarf atvinnulífsins og háskólanna og ég tek heils hugar undir þá skoðun ráðherrans.

Fjármögnun háskólastigsins er eins og fram hefur komið ofarlega á baugi víða um heim. Sumar þjóðir hafa farið þá leið að gera framlög fyrirtækja til háskólastigsins frádráttarbær frá skatti og mér finnst það umhugsunar- og umræðunnar virði. Að því gefnu, að sjálfsögðu, að við tryggjum háskólunum áfram akademískt frelsi. En undanfarin ár heyrum við æ meir af einstökum verkefnum, rannsóknastofum með annarri háskólastarfsemi þar sem fyrirtæki koma að fjármögnuninni og er það vel.

En hæstv. forseti. Í ljósi þess sem ég sagði um nauðsyn nýs fjármagns inn í háskólana og þess sem hæstv. ráðherra hefur sagt um tengsl atvinnulífsins og háskólanna, spyr ég hæstv. menntamálaráðherra, hver afstaða hennar sé til þeirrar hugmyndar að auka stuðning atvinnulífsins við háskóla með því að gera slík framlög frádráttarbær frá skatti.