133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

stuðningur atvinnulífsins við háskóla.

217. mál
[15:07]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Í upphafi vil ég sérstaklega benda á að framlög atvinnulífsins til vísindamála eru nú þegar frádráttarbær frá skatti innan ákveðinna marka og því ekkert í rauninni því til fyrirstöðu að heimildin sé notuð. Það er hugsanlegt að stjórnvöld og háskólarnir þurfi einfaldlega að kynna það mál mun betur en raun ber vitni.

Ég vil einnig geta þess að það er kveðið á um skattlagningu fyrirtækja og frádráttarliði í skattalögum en framkvæmd þess heyrir undir fjármálaráðherra og er falin skattstjórum. Þar er meginreglan sú, þ.e. m.a. í lögum um tekjuskatt frá árinu 2003, að allar tekjur í atvinnurekstri eru skattskyldar en það er heimill frádráttur frá tekjum sem nemur þeim kostnaði sem varið er til að afla teknanna. Um þessa meginreglu ríkir almenn sátt og í rauninni eru ekki efnislegar ástæður til að gera breytingar þar á.

Í reynd hefur þetta þýtt að fyrirtæki sem leggja stund á rannsóknir og þróunarstarfsemi og leggja þannig grunn að frekari tekjuöflun fyrirtækisins geta eðlilega dregið kostnaðinn sem af þeirri starfsemi hlýst frá tekjum fyrirtækisins.

En ég geng sem sagt út frá því að hv. fyrirspyrjandi sé að vísa til ákvæðis í sömu lögum sem fellur undir 31. gr. En þar segir af tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eða eru tengdar slíkum rekstri, megi draga einstakar gjafir og framlög til kirkjufélaga, viðurkenndrar líknarstarfsemi, menningarmála, stjórnmálaflokka og vísindalegra rannsóknastarfa, þó ekki yfir 0,5% af tekjum á því ári sem gjöf er afhent. Þá kemur í ákvæðinu að fjármálaráðherra ákveði síðan með reglugerð hvaða málaflokkar og stofnanir falla undir þennan tölulið.

Eins og sjá má samkvæmt gildandi löggjöf þá er í rauninni hægt að draga frá skattskyldum tekjum fyrirtækja ákveðin útgjöld og þetta hefur að mínu mati gefist vel og njóta t.d. háskólar af rausnarskap fyrirtækja sem leggja háskólum lið, með því t.d. að kosta prófessorsstöður eða til að byggja upp aðstöðu til annarra verkefna sem falla að þessum heimildum.

Í ýmsum löndum OECD hefur verið farin sú leið að veita fyrirtækjum skattaívilnanir umfram 100% færslu á kostnaði við rannsóknir og þróunarstörf og hvetja þau þannig til frekari framlaga í þeim tilgangi.

Hér á landi hefur ekki verið talið rétt að beita skattalögum með þessum hætti. Hér njóta fyrirtæki hlutfallslega lágrar skattprósentu af hagnaði miðað við önnur OECD-lönd og hafa því í rauninni nokkuð rými til að ráðstafa tekjum sínum að eigin ákvörðun.

Í rauninni heyrir framkvæmd skattalaganna undir fjármálaráðherra. En engu að síður vil ég undirstrika að það eru í rauninni tvenns konar sjónarmið sem stangast þarna á eða eru að togast á. Það er að hafa einfalt skattkerfi, lága skattprósentu til þess að veita fyrirtækjunum þetta svigrúm til þess að fjárfesta og leggja fram framlög í mikilvæga málaflokka. Við getum nefnt menntunina og menninguna. Við getum nefnt íþróttir og forvarnastarf almennt. Allt eru þetta göfug málefni sem við vonumst til að fyrirtækin setji meira fjármagn í. En til þess þurfa þau auðvitað að hafa svigrúm.

Þannig að það er annars vegar það að hafa lága skattprósentu sem við teljum hafa haft góðar afleiðingar. Við sjáum tekjur ríkisins í rauninni aukast mun meira hlutfallslega miðað við það að við höfum verið að lækka skattinn á fyrirtækin. Síðan er hins vegar það sem er alveg ljóst, eins og kom hér fram í umræðunum áðan, að ég tel mikilvægt að fyrirtæki leggi í ríkari mæli fjármagn inn í háskólana, ekki síst með tilliti til þess að það er ekki síst fyrirtækið sem nýtur góðs af öflugum háskóla bæði í gegnum rannsóknirnar en ekki síður því að fyrirtækin þurfa á mjög öflugu starfsfólki að halda, vel menntuðu o.s.frv.

Ég tel vel koma til greina að maður skoði sérstaklega hvernig hægt er, m.a. í gegnum skattalöggjöfina, að efla framlögin til þessara mikilvægu málaflokka en um leið að við ógnum ekki þeirri mikilvægu meginreglu sem felst í því að hafa einfalt skattkerfi og lága skattprósentu. Það hefur tvímælalaust gefið af sér mikla arðsemi og getið af sér mikla arðsemi í þágu ríkissjóðs sem síðan beinir fjármagninu inn í háskólana.

Það má segja að það hefur líka auðveldað okkur að auka framlögin til háskólastigsins svona hratt sem raun ber vitni hversu vel ríkissjóður hefur dafnað. Þannig að þetta er tvíbent.

En ég undirstrika að ég tel að það eigi að auðvelda fyrirtækjum með einhverjum hætti að fjárfesta frekar í menntamálunum en ekki síður í menningarmálunum.