133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

stuðningur atvinnulífsins við háskóla.

217. mál
[15:14]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Það er engin spurning að sú mikla sprenging sem hefur orðið á háskólastiginu hérlendis á allra síðustu árum á eftir að skila sér inn í samfélagið. Hún á eftir að hækka menntastig okkar og hún á eftir að skila sér á öllum sviðum mannlífs.

Þó að hv. Alþingi hafi brugðist við þessari miklu sprengingu með stöðugt auknum fjárframlögum til háskólanna þá eru þar engu að síður vaxtaverkir. Þess vegna er auðvitað mjög mikilvægt að taka þessa umræðu og ber að þakka fyrir hana.

Ég tek undir það sjónarmið að við eigum að reyna að draga atvinnulífið betur inn í þetta og minni m.a. á að einn af forkólfum atvinnulífsins talaði um hina samfélagslegu ábyrgð atvinnulífsins, einmitt í ljósi þess að skattar á atvinnulífið hafa verið að lækka.

Þess vegna tek ég undir það sem hæstv. ráðherra sagði og hvet til þess að það verði farið inn á þá braut sem hv. fyrirspyrjandi er að sneiða að, að skoða skattalegt umhverfi til þess einmitt að gera þennan kanal atvinnulífsins enn greiðari en gert hefur verið.