133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

stuðningur atvinnulífsins við háskóla.

217. mál
[15:16]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sæunn Stefánsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir hans greinargóðu svör og þeim hv. þingmönnum sem hér hafa tekið þátt í umræðunni. Það er mikilvægt, eins og ég sagði, að við höldum áfram þróun háskólastigsins og tryggjum öllum sem það kjósa aðgengi að góðu háskólanámi. Við höfum upplifað þessa þróun, þessa miklu fjölgun og um leið þessa miklu hækkun framlaga ríkisins til háskólastigsins. Þess vegna er mikilvægt að við höldum áfram að ræða um að breikka fjármögnunarmöguleika háskólanna.

Eins og kom fram í máli hæstv. menntamálaráðherra þá liggur fyrir heimild í lögum til þess nú þegar en það er spurning hvernig við útfærum enn frekar þá leið. Ég tek undir að það þarf alltaf að vera með þessi sjónarmið á lofti, annars vegar um einfaldleika og gegnsæi skattkerfisins og hins vegar með hvaða hætti við getum stuðlað að aukinni þátttöku atvinnulífsins í hinum ýmsu málum. Ég tek undir með hv. þm. Ellerti B. Schram að þar eru íþróttirnar og menningarstarfið eins og hæstv. menntamálaráðherra kom inn á, alls ekki undanskilið.

En ég heyri á umræðunni að hérna er samhljómur um að leita leiða til að skoða þessi mál nánar og mun ég leita leiða til að fá ef til vill hæstv. fjármálaráðherra í umræður við okkur í þinginu um það.

En fyrst og fremst skiptir öllu máli að við höldum áfram þróun og eflingu háskólastigsins. Það hefur orðið algjör bylting sem við getum verið stolt af og við eigum að leita leiða til að leyfa háskólunum að þróast og eflast enn frekar. Ég veit að hæstv. menntamálaráðherra mun í samvinnu við þingið tryggja að svo verði.