133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga.

223. mál
[15:20]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Árið 2001 samþykkti Alþingi tillögu til þingsályktunar sem flutt var af þingmönnum úr öllum flokkum þar sem ríkisstjórninni var falið að undirbúa heildstæða stefnu í málefnum barna og unglinga. Á grundvelli stefnumótunarinnar átti að gera fimm ára framkvæmda- og aðgerðaráætlun sem leggja átti fyrir Alþingi til staðfestingar eigi síðar en á haustþingi árið 2002.

Það tók fjögur ár að vinna skýrsluna sem lögð var fyrir Alþingi fyrir einu ári. Engin framkvæmda- eða aðgerðaráætlun fylgdi eins og Alþingi hafði kallað eftir. Forsætisráðherra upplýsti bara að eftir fjögurra ára starf nefndar að skýrslugerð sem að komu 130 einstaklingar, m.a. helstu sérfræðingar á sviði félags- og heilbrigðisþjónustu um málefni barna, þá yrði málið sett aftur í nefnd og nú í svokallaða fjölskyldunefnd forsætisráðherra.

Á síðastliðnu Alþingi lagði ég aftur fram fyrirspurn til þáverandi forsætisráðherra sem staðfesti að lítið hefði verið gert í málinu, engin aðgerðaráætlun hefði verið undirbúin né að fyrir lægi heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga.

Heildarstefnumótun og framkvæmdaráætlun í málefnum barna og unglinga hefur verið í gildi í áratugi á hinum Norðurlöndunum og umboðsmaður barna hefur árlega og á annan áratug kallað eftir slíkri stefnumótun hér á landi en án árangurs.

Í skýrslunni sem lögð var fyrir Alþingi fyrir tveimur árum er að finna upplýsingar um mikla brotalöm í málefnum barna og unglinga hér á landi en þeim hópi tilheyra um 80.000 landsmenn. Einnig er kallað eftir verkaskiptingu milli ráðuneyta og stofnana sem er orðin úrelt, óskýr og óhagkvæm.

Í skýrslunni er lýst miklum agnúum á bóta- og velferðarkerfinu varðandi hag barna, m.a. að bætur velferðarkerfisins séu svo naumt skammtaðar að þær hrökkvi ekki fyrir lágmarksframfærslukostnaði og skorti þar mikið á. Enda væri fátækt fólk oft fast í svonefndri fátæktargildru. Sérstaklega er nefnt að úrbóta sé þörf í málefnum fátækra barna, nýbúa, barna með geðraskanir og barna og ungmenna í vímuefnavanda. Einnig kemur fram hve fljótt dregur úr skólasókn ungmenna því einungis innan við helmingur tvítugra ungmenna stundi nám.

Það er líka grafalvarlegt að í skýrslunni kemur fram að kynferðisleg misnotkun barna sé stórum útbreiddari en álitið hefur verið hingað til og nærri fimmta hvert barn sem er 18 ára að aldri hafi orðið fyrir henni. Auk þess sem stór hópur barna, eða 5–10%, verði reglulega fyrir einelti í skólum.

Það er því skömm að því, virðulegi forseti, að tveir hæstv. forsætisráðherrar sem hafa setið hér frá því að umrædd tillaga var samþykkt á Alþingi, skuli svo lítið hafa gert í málinu, það sé raunverulega í sömu stöðu og þegar þingsályktunartillagan var samþykkt, fyrir utan skýrsluna sem var samþykkt.

Ég vænti þess að þriðji forsætisráðherrann sem fjallar um þetta mál, Geir H. Haarde, svari því nú í þessari fyrirspurn að hann ætli að drífa í framkvæmdum á málinu. Við erum eina Norðurlandið sem höfum ekki slíka stefnumótun og hennar er sannarlega þörf. En í skýrslu Íslands til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna árið 2003, voru fulltrúar ríkisstjórnarinnar einmitt að státa sig af því að slík framkvæmdaáætlun væri í undirbúningi og væri að ljúka. (Forseti hringir.) En samt hefur ekkert verið gert.