133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga.

223. mál
[15:23]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Í samræmi við ályktun Alþingis 11. maí 2001 skipaði þáverandi forsætisráðherra um haustið nefnd til að undirbúa heildstæða og samræmda opinbera stefnu í málefnum barna og unglinga undir formennsku Drífu Hjartardóttur, alþingismanns. Nefndin skilaði forsætisráðherra niðurstöðu í skýrsluformi í mars 2005 og var skýrslan lögð fram á Alþingi hinn 18. apríl það ár.

Í skýrslunni er m.a. lögð áhersla á að ríkisstjórnin taki ábendingar barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna frá því í janúar 2003 varðandi framkvæmd barnasáttmálans, til gaumgæfilegrar athugunar. Jafnframt er lögð áhersla á að ávallt liggi fyrir heildstæðar og áreiðanlegar almennar upplýsingar um börn og ungmenni hérlendis, sem máli skipta við stefnumótun og ákvarðanatöku opinberra aðila um hagi þeirra.

Enn fremur er lögð áhersla á að heilsugæsla í skólum sé öflug miðstöð innan hinnar almennu heilsugæslu fyrir börn og ungmenni á öllum skólastigum, að forvarnir, greining og meðferð geð- og atferlisraskana hjá börnum og ungmennum verði aðgengilegar, skilvirkar og árangursríkar og að börn af erlendum uppruna sem vaxa upp á Íslandi fái allan stuðning sem mögulegt er að veita af hálfu opinberra aðila til að aðlagast hinu íslenska samfélagi.

Í framhaldi af þessu fól þáverandi forsætisráðherra sérstakri nefnd sem skipuð var til að meta stöðu íslensku fjölskyldunnar, að fara yfir tillögur úr skýrslunni með það í huga að fella þær að öðrum tillögum sem miða að því að styrkja stöðu fjölskyldunnar og huga að gerð framkvæmdaáætlunar sem kveðið er á um í þingsályktun um stefnumótun í málefnum barna og unglinga. Þar er málið núna statt og ég hef beint þeim tilmælum til nefndarinnar að hún ljúki störfum sem fyrst.

Herra forseti. Á vegum ríkisstjórnarinnar er verið að vinna að málefnum barna og unglinga með margvíslegum hætti, enda er þetta mikilvægur málaflokkur sem hefur fengið verulega aukið fjármagn frá hinu opinbera á undanförnum árum. Stefnan í einstökum málum er skýr og áherslur eru í stöðugri endurskoðun í ljósi reynslunnar. Ýmis löggjöf sem ætlað er að tryggja stöðu og velferð barna og unglinga hefur verið tekin til gagngerðrar endurskoðunar.

Í því sambandi má nefna að ný barnaverndarlög voru samþykkt á Alþingi árið 2002 sem m.a. er ætlað að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu, fái nauðsynlega aðstoð. Þá tóku ný barnalög gildi síðla árs 2003 þar sem m.a. er kveðið á um ýmsan rétt barna, foreldraskyldu og framfærsluskyldu foreldra. Jafnframt hafa nýlega verið samþykkt lög frá Alþingi um að stórhækka barnabætur sem verða til þess að styrkja stöðu fjölskyldunnar enn frekar.

Af öðrum atriðum má nefna að á undanförnum árum hefur markvisst verið unnið að því að efla menntun barna og unglinga og styrkja skólana til að sinna menntunar- og uppeldishlutverki sínu.

Í menntamálaráðuneytinu er verið að ljúka heildarendurskoðun á starfi í leik-, grunn- og framhaldsskólum í samræmi við samkomulag kennarasamtakanna og menntamálaráðherra sem undirritað var í febrúar síðastliðnum. Þar er lögð áhersla á samfellu í skólastarfinu, allt frá leikskóla til loka framhaldsskóla.

Þá hefur verið starfandi nefnd fjögurra ráðuneyta frá árinu 2000 sem ætlað er að samræma aðgerðir og fylgja eftir stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum langveikra barna. Í heilbrigðisráðuneytinu er unnið að því að efla heilbrigðisþjónustu við börn og unglinga með geðraskanir. Þá hefur sérfræðiþjónusta á heilsugæslustöðvum sem miðar að þjónustu við börn og unglinga verið verulega aukin og á vegum lýðheilsustöðvar er rekin margháttuð forvarnaþjónusta sem hefur það að markmiði að styðja við þroska og andlega vellíðan barna og unglinga.

Embætti umboðsmanns barna sem ætlað er að vinna að bættum hag barna og standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi þeirra gefur árlega út skýrslu um starfsemi þess.

Herra forseti. Af hálfu forsætisráðuneytisins hefur verið leitað eftir upplýsingum frá Norðurlöndunum um stefnumótun þeirra í málefnum barna og unglinga. Þar kemur m.a. fram að áherslur og stefnumörkun Norðurlandanna eru með ýmsum hætti. Grunnurinn að stefnu Svía í málefnum barna og ungmenna er sú stefnumótun sem sænska þingið samþykkti árið 1997 um leiðir til að framkvæma sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

Norska ríkisstjórnin hefur lagt fram heildaráætlanir um málefni barna og ungmenna, bæði hvað varðar uppvaxtar- og lífsskilyrði og einnig hvað varðar vernd barna og ungmenna.

Danska fjölskyldu- og neytendamálaráðuneytið gaf út í nóvember 2005 sérstaka skýrslu sem var innlegg ríkisstjórnarinnar í opinberri umræðu um hvernig unnt væri að ná betra jafnvægi milli fjölskyldulífs, atvinnulífs og frítíma.

Í skýrslu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis Finnlands, sem gefin var út árið 2005, er m.a. tillaga að opinberri framkvæmdaráætlun Finnlands um málefni barna og ungmenna en hún tekur m.a. mið af athugasemdum barnaverndar Sameinuðu þjóðanna um framkvæmd Finnlands að barnasáttmálanum.