133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga.

223. mál
[15:31]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það gengur hreinlega ekki að bjóða Alþingi Íslendinga upp á það eina ferðina enn af þriðja forsætisráðherranum sem fjallar um þetta mál að fá alltaf sama svarið, að það sé ekkert að ske í þessu máli.

Hæstv. forsætisráðherra átti að leggja fyrir Alþingi árið 2002, fyrir fjórum árum, framkvæmdaáætlun í þessu máli sem Alþingi átti að fjalla um. Það hefur ekkert verið gert. Síðasti forsætisráðherra ákvað að setja þetta mál í fjölskyldunefnd forsætisráðherra, eins og hér hefur komið fram, undir stjórn Björns Inga Hrafnssonar sem einungis hefur notað þessa nefnd sem vettvang fyrir sjálfan sig og þá prófkjörsbaráttu sem hann hefur verið í.

Hvað hefur þessi nefnd gert síðan síðasti forsætisráðherra sagði að hún ætti að ljúka störfum sem fyrst? Nákvæmlega það sem þessi forsætisráðherra sem hér talar segir. Hvað hefur hún gert? Um það er spurt í þessari fyrirspurn sem hæstv. forsætisráðherra er hér að svara. Ég óska eftir því að hann svari henni. Hefur hann tímasett það hvenær þessi nefnd eigi að ljúka störfum? Hvenær verður þessi stefnumótun og framkvæmdaáætlun lögð fyrir þingið? Það er ekki til of mikils mælst, virðulegi forseti, að þessu sé svarað hér.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Hefur hann lesið greinasafn sem kom fram í Morgunblaðinu í októbermánuði sl. þar sem rauði þráðurinn var áfellisdómur yfir íslensku samfélagi sem varla væri hægt að kalla barnvænt samfélag, vitnað í sérfræðinga sem segja að barnið sé ekki jafnmikill miðpunktur í samfélaginu og annars staðar á Norðurlöndum þegar borin eru saman uppvaxtarskilyrði barna? Það gengur ekki að bjóða Alþingi upp á þetta. Það er fyrir neðan virðingu þingsins að taka á móti svona svörum, aftur og aftur, frá forsætisráðherra eftir forsætisráðherra, að ekkert sé verið að gera hér að því er varðar þessa stefnumótun sem annars staðar á Norðurlöndunum hefur verið búið við í marga áratugi. Ég mótmæli þessum svörum sem þriðji forsætisráðherra gefur Alþingi Íslendinga (Forseti hringir.) sem var að skila auðu að því varðar stefnumótun (Forseti hringir.) í málefnum barna og ungmenna.