133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

Miðstöð mæðraverndar.

[15:52]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir að taka hér upp utan dagskrár málefni Miðstöðvar mæðraverndar. Sömuleiðis þakka ég hæstv. heilbrigðismálaráðherra fyrir svör hennar og þá miklu áherslu sem ég finn á máli hennar að hún leggi á þjónustu við þungaðar konur.

Við eigum auðvitað að gera þjónustu við barnshafandi konur sem best úr garði og ekki síst við þær sem eiga á hættu erfiðleika á meðgöngunni. Umræðuefni okkar hér í dag á auðvitað að vera með hvaða hætti við getum tryggt að þjónusta við þungaðar konur verði sem best, skipulagið sem einfaldast og fyrirkomulag allt sem skilvirkast.

Á undanförnum árum höfum við verið að styrkja grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins, heilsugæsluna, um allt land en ekki síst á höfuðborgarsvæðinu þar sem okkur hafði um nokkurt árabil ekki tekist að fylgja eftir fjölgun fólks á svæðinu. Við höfum opnað fleiri heilsugæslustöðvar og stækkað þær sem fyrir voru en það sem skiptir ekki síst máli er að við höfum aukið þjónustu heilsugæslustöðvanna og það þjónustuframboð sem er í boði á hverri stöð.

Þróun þjónustunnar við þungaðar konur, mæðraverndin, sem hér er til umræðu sýnist mér vera í takt við þessa stefnumörkun hæstv. heilbrigðismálaráðherra. Heilbrigðar, þungaðar konur — sem betur fer eru flestar þungaðar konur það — sækja þjónustu inn á heilsugæslu og helst í því hverfi þar sem þær búa en þær konur sem eiga á hættu erfiðleika á meðgöngunni geta sótt þjónustu kvennadeildar Landspítalans þar sem þær bíða og vonandi eiga síðan barnið.

Það er því samfella í þjónustunni við þann hóp sem ég hef talið mikilvægastan. Enda hefur raunin orðið sú að æ fleiri heilbrigðar, þungaðar konur hafa á undanförnum árum sótt þjónustu mæðraverndar á sinni heilsugæslustöð. Þetta er m.a. gert vegna þess að við höfum styrkt hina faglegu þætti heilsugæslustöðvanna með því að ráða ljósmæður þangað.

Miðstöð mæðraverndar hefur unnið gott starf og það er rétt að þar hefur skapast mikil sérþekking. Sérþekkingin mun nýtast áfram því að eftir breytingarnar sem hér eru til umræðu mun Miðstöðin styðja við bakið á heilsugæslunni, veita henni öfluga ráðgjafarþjónustu og vera bakhjarl hennar.

Sú þróun sem hér er til umræðu mun styrkja þjónustuna við þungaðar konur og það er það sem skiptir máli.