133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

Miðstöð mæðraverndar.

[15:59]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þátttöku í umræðunni. Hæstv. ráðherra svaraði spurningum mínum á þann hátt að hér yrði um betri og markvissari þjónustu að ræða. Hins vegar hefur komið mjög skýrt fram í máli þingmanna að það er ekki einhlítt, nú síðast í ræðu hv. þm. Ástu Möller þar sem gagnrýndur var bæði sá hraði sem hefur verið á þessu máli og einnig að það er lagt í fjárfestingu og útgjöld á nokkrum póstum án þess að nokkur viti hver framtíðin er í raun. Það hefur hér verið talið upp, endurbætur á Heilsuverndarstöð vegna Miðstöðvarinnar og núna endurbætur í Mjóddinni og svo fram eftir götunum.

Það virðist vera svo, frú forseti, að aðalástæða þessara breytinga sé ekki heilsufarslegs eðlis heldur húsnæðislegs. Aðalástæða þessarar grundvallarbreytingar hefur í raun ekkert með þjónustuna við konurnar að gera. Hér er reynt að bera í bætifláka fyrir breytingarnar og segja: Þetta er í raun betra svona. Spítalinn tekur hér hundruð kvenna, þótt mér sé enn ekki ljóst hvort við erum að tala um 15 eða 30% þessara kvenna. Sú tala er eitthvað á reiki. En á móti kemur að Heilsuverndarstöðin var seld. Hefði hún aldrei verið seld með þeim hætti sem gert var væri ekki verið að breyta neinu. Hér er ekki einhver lýðheilsupólitík að baki. Mér þykir það blasa nokkuð skýrt við, frú forseti.

Þá spyr maður: Hvað veldur? Hvað stýrir í raun stjórnun og pólitískri stefnumótun í heilbrigðiskerfi á Íslandi? Og þjónustu við þann hóp kvenna sem í raun fær besta þjónustu frá heilbrigðiskerfinu, þungaðar konur sem af einhverjum ástæðum eru í áhættuhópi á meðgöngu og einhvern tímann meðgöngunnar? Hvað liggur að baki?

Ég ítreka það sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir sagði hér, við þingmenn Samfylkingarinnar munum (Forseti hringir.) bera fram skýrslubeiðni vegna þessa máls, (Forseti hringir.) aðdraganda þess, kostnaðar og pólitíkurinnar sem að baki er.