133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

afkoma lunda og annarra sjófugla.

202. mál
[18:01]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Núverandi kvótakerfi byggist vægast sagt á vafasamri líffræði þar sem eingöngu er litið til veiða mannsins sem eina áhrifaþáttarins á stærð fiskstofna. Í þessum áætlunarbúskap, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir, hefur hvorki gengið né rekið, enda má spyrja sig hvort ekki sé vafasamt að reyna svona áætlunarbúskap í undirdjúpunum. Stalín datt ekki í hug að fara með áætlunarbúskap sinn í undirdjúpin. Hann reyndi hann bara á þurru landi og gekk ekki vel en samt berja menn hausnum við steininn hér á landi hvað eftir annað og reyna að reka kerfi sem gengur ekki upp og stenst ekki neina líffræðilega skoðun. Ég hef ákveðið að beina eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegsráðherra til að hann fari að átta sig á að það eru fleiri þættir en maðurinn sem hafa áhrif á lífríkið og að dýrastofnarnir hafa áhrif hverjir á aðra:

Hefur verið athugað hvort tengja megi afkomu lunda og annarra sjófugla við útbreiðslu og afkomu ýsustofnsins?

Eins dauði er annars brauð í náttúrunni. Fyrir um ári síðan var talsvert rætt um afkomu sjófugla og þá lægð sem stofnarnir voru í, svo sem krían en þar var bent á sandsílið. Í kjölfarið eða síðastliðið vor bárust fréttir af því að Hafró væri að rannsaka sandsílið sérstaklega. Sandsílið er ekki eingöngu æti fyrir sjófugla heldur er það mjög mikilvægt æti fyrir fiskstofnana, nytjastofnana, en það má reikna út að ýsan þurfi að éta um 500 tonn á hverri klukkustund og drjúgur hluti þeirrar fæðu er einmitt sandsílið. Og hvers vegna ætti ekki að spyrja þeirrar eðlilegu spurningar, ef ýsunni fjölgar mjög mikið, hvort það hafi ekki áhrif á stærð sandsílastofnsins sem síðan takmarkar fæðu sjófugla, svo sem lunda? Mér finnst mjög brýnt að hæstv. sjávarútvegsráðherra velti þessu fyrir sér vegna þess að hann horfir eingöngu á veiðar mannsins. Hann hefur svipt heilu byggðarlögin, svo sem Bíldudal, veiðiréttinum og kemur síðan með einhver falsloforð um byggðakvóta sem sjaldnast standa. Mér finnst vera íhugunarefni ef menn sýna ekki vilja til að breikka sjóndeildarhring sinn um lífríki hafsins og áhrif mannsins á það.