133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

afkoma lunda og annarra sjófugla.

202. mál
[18:08]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson spyr hvort tengja megi afkomu lunda og annarra sjófugla við útbreiðslu og afkomu ýsustofnsins. Ég held að það séu meiri líkur en minni á því að þarna séu tengsl á milli. Ef maður skoðar skýrslu Hafrannsóknastofnunar um ýsustofninn og hvernig hann hefur þróast í áætlaðri stofnstærð, skoðar útbreiðslu ýsunnar og veltir því á sama tíma fyrir sér hvernig standi á því að sjófugl almennt umhverfis landið, ekki bara lundi heldur aðrir fuglar, svartfugl, hve þessum stofnum hefur gengið afskaplega illa að finna fæðu, hvernig afkoma þeirra og nýliðun, viðkoma, hefur hríðversnað á sama tíma og ýsustofninn hefur stækkað mjög hratt, þá held ég að tengslin þarna á milli séu augljós og kannski óþarfi að rannsaka mikið það sem sjálfsagt er og liggur í augum uppi.