133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

afkoma lunda og annarra sjófugla.

202. mál
[18:09]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Mér finnst það jákvæðar fréttir ef menn eru farnir að tengja saman samspil dýrategunda sem nýta sömu fæðuna en því miður er það ekki reglan að svo sé gert, t.d. í skýrslum Hafró. Ef skýrslum Hafró er flett virðist hver og ein tegund lifa nánast sjálfstæðu lífi og einu áhrifavaldar á nýliðun viðkomandi dýrategundar, svo sem þorsksins, er fjöldi hrygna eða hrygningarstofn og slíkir þættir en það er auðvitað mjög sérkennileg líffræði.

Mér finnst gleðilegt að menn séu aðeins að opna rifuna og líta til annarra átta. Þetta sést m.a. í líffræðiskýrslum, t.d. frá Færeyjum þar sem menn sjá greinileg merki þess að afkoma sjófugla og fiskstofna geti fylgst að. Og það sem meira er, menn sjá skýr merki um það þegar vaxtarhraði eykst að nýliðun batnar, þá aukast líkur á að nýliðun fiskstofna verði mikil. Mér finnst þessi atriði alls ekki komast til skila hvorki í skýrslum Hafrannsóknastofnunar né í stýringu veiðanna þar sem í rauninni er alveg fáheyrt hve farnar eru furðulegar leiðir. Við höfum dæmin t.d. í Arnarfirði þar sem menn reyna fyrir sér með hinar ólíklegustu tilraunir, svo sem að fóðra afræningja í stað þess að veiða þorskinn sem þar er. Það er kominn tími til að menn opni augun og horfi til fleiri átta en gert hefur verið hvað varðar stýringu í veiðum og nýtingu á náttúruauðlindum þjóðarinnar.