133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

afkoma lunda og annarra sjófugla.

202. mál
[18:11]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri jákvæðu umræðu sem hefur sprottið um þessa spurningu, sem ég held að hafi skipt máli og sé líkleg til þess að við reynum að varpa aðeins ljósi á ákveðið orsakasamhengi sem allir sjá auðvitað fyrir sér að er til staðar í náttúrunni.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson sagði áðan að auðvitað eru sumir hlutir alveg augljósir og við þekkjum þá, þannig að við þurfum í sjálfu sér kannski ekki miklar rannsóknir til að skilja það. Engu að síður held ég að þær rannsóknir sem ég vísaði til, bæði rannsókn Arnþórs Garðarssonar og eins rannsókn Hafrannsóknastofnunar, hafi út af fyrir sig skýrt málið talsvert. Þar kemur fram að menn hafa verið að skoða hvort át sjófugla á seiðum þorskfiska geti verið umtalsvert. Niðurstaðan er að svo sé ekki. Hins vegar er hitt, sem líka skiptir miklu máli í þessu sambandi, og það er að uppistaðan í fæðu sjófuglanna og ýsunnar getur verið sameiginlegir fæðuhópar og það hefur auðvitað áhrif á afkomuna bæði hjá fuglunum og ýsunni. Það er augljóst mál að ef hvor tegund um sig keppir um sameiginlega fæðuhópa hefur það áhrif á afkomu hvors stofns um sig eða alla þessa stofna. Ég held að þetta varpi ljósi á málið. Ég ítreka að þessar rannsóknir hafa staðið yfir og þó að sumt sé manni ljóst er annað það ekki og því held ég að skynsamlegt sé að halda slíkum rannsóknum áfram í einhverjum mæli.