133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

rannsóknir á ýsustofni.

252. mál
[18:36]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Mér finnst hæstv. sjávarútvegsráðherra binda sig allt of mikið við rannsóknir í þessum efnum. Hann bindur sig við rannsóknir sem mun taka ár að framkvæma og kannski enn fleiri ár að vinna úr niðurstöðum og á meðan líður tíminn og ástandið versnar kannski.

Mér finnst að við hefðum ekki tapað neinu á því þó að við hefðum tekið þá ákvörðun að veiða hreinlega meira af ýsu við þessa aðför. Ég hefði gert það ef ég hefði verið í embætti sjávarútvegsráðherra, sem ég verð kannski vonandi einn góðan veðurdag, ég skal ekki segja um það. Ég hefði ákveðið að veiða meira af ýsu. Ég hefði tekið sénsinn á því. Ég held að við hefðum ekki tapað neinu á því, því það eru fleiri vísbendingar um að ýsan sé mjög sennilega að þurrka út sandsílastofninn, leggist á sandsílið, jafnvel sjúgi það af botninum, éti það úr botninum og komi jafnvel í veg fyrir nýliðun á sandsíli.

Ég hef líka séð í skýrslum Hafrannsóknastofnunar að meira að segja ýsan virðist glíma við mjög alvarlegan ætisskort. Það kemur mjög greinilega fram að meðalþyngd á ýsu hefur hrunið og í nýjustu ástandsskýrslu Hafrannsóknastofnunar er sagt að vöxtur ýsu hafi verið mjög hægur árið 2005 og meðalþyngd árgangsins frá 2003, sem er einn stærsti árgangur sem menn hafa nokkurn tíma séð, er sú minnsta sem sést hefur. Þetta segir mér náttúrlega að sá fiskur hefur það ekki mjög gott. Þá held ég að betra sé að veiða hann en láta hann vera áfram í hafinu. Það væri rannsókn í sjálfu sér að sjá þá hvort það mundi ekki leiða til þess að ef við aukum veiðiálag á ýsu muni sandsílastofninn braggast. Við svona aðstæður höfum við engu að tapa.

Hitt er svo annað mál að þegar svona mikið er af ýsu á slóðinni stóreykst sóunin við veiðarnar. Nýjasta brottkastsskýrsla Hafrannsóknastofnunar sýnir að brottkastið á ýsu er hreinlega allt of mikið og gersamlega óverjandi. En það er náttúrlega efni í aðra og alveg sérstaka umræðu.