133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

rannsóknir á ýsustofni.

252. mál
[18:38]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég get ekki tekið undir það með hv. þingmanni að ekki eigi að bíða eftir þessum rannsóknum. Hv. þingmaður var einmitt að spyrja mig um hvort farið hefðu fram einhverjar rannsóknir á mögulegum tengslum ýsustofnsins umhverfis landið við niðursveiflu í sandsílastofninum. Svarið var að þær rannsóknir væru hafnar og svarið var líka það að ég vísaði til annarra rannsókna sem staðið hafa yfir frá árinu 2005 og velti því einmitt fyrir mér hvort sú staðreynd að sú rannsókn sem hafði farið fram á þeim tíma gæti ekki flýtt fyrir því að við gætum komist a.m.k. nálgun varðandi niðurstöður á þessum rannsóknum.

Það er út af fyrir sig alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að til greina kom að auka kvótann í ýsunni vegna þeirrar stöðu sem uppi er í ýsustofninum. Ég tók þá ákvörðun, eins og hv. þingmaður hefur væntanlega tekið eftir, að fara ekki eftir tillögum Hafrannsóknastofnunar varðandi ýsuna. Tillaga Hafrannsóknastofnunar var sú að leggja til verulega minnkun eða talsverða minnkun á ýsukvótanum milli ára, ekki vegna þess að ýsustofninn væri slakur heldur töldu þeir að hámarksafraksturinn væri betri með því að fara varlegar í sóknina.

Ég komst að annarri niðurstöðu. Ég komst að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt væri við þessar aðstæður, m.a. vegna þess að um væri að ræða óvenjulega stóran stofn, að leggja til meiri hámarksafla í ýsu en Hafrannsóknastofnun hafði lagt til. Á vissan hátt var ég því að fara að ráðum hv. þingmanns þó ég væri ekki sérstaklega með þau í huga þegar ég tók þá ákvörðun, ekki svona sérstaklega. Ég hafði hlustað eftir ýmsum sjónarmiðum svipuðum hans sem og mörgum öðrum og komst að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt væri og verjandi að auka hann. Þess vegna lagði ég til og ákvað raunar að hámarksaflinn í ýsunni yrði talsvert meiri en Hafrannsóknastofnun hafði lagt til og veit ég að það gleður hið góða hjarta hv. þingmanns.